Tveir teknir af lífi

Michael Samra og Donnie Edward Johnson.
Michael Samra og Donnie Edward Johnson. AFP

Tveir menn voru teknir af lífi í Bandaríkjunum í gærkvöldi með banvænni sprautu. Annar þeirra hafði setið á dauðadeild í 35 ár en hinn í 21 ár. Sá, en hann er á mörkum greindarskerðingar, var 19 ára gamall þegar hann tók þátt í að myrða fjölskyldu.

Donnie Edward Johnson, 68 ára gamall fangi í Tennessee, var dæmdur til dauða árið 1984 fyrir að hafa myrt eiginkonu sína, Connie Johnson, í Memphis, Tennessee, með því að troða ruslapoka ofan í kok hennar og kæfa.  

Michael Brandon Samra, 41 árs gamall fangi í Alabama, var dæmdur til dauða árið 1998 fyrir að hafa tekið þátt í því með félaga sínum, Mark Duke, sem var sextán ára á þeim tíma, að myrða fjölskyldu Duke.

Samra og Mark Duke  drápu Randy Duke, föður Marks, unnustu Randy, Dedra Mims Hunt, og sex og sjö ára gamlar dætur hennar. 

Samra var eins og áður sagði 19 ára þegar hann framdi morðin árið 1997 í Pelham, Alabama. Ástæðan var sú að Mark Duke reiddist föður sínum fyrir að hafa neitað honum um að nota jeppa í hans eigu. Randy Duke og Dedra Mims Hunt voru skotin til bana en litlu stúlkurnar skornar á háls.

Mark Duke var einnig dæmdur til dauða en dóminum var breytt í lífstíðarfangelsi eftir að hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu árið 2005 að ekki ætti að taka fanga af lífi sem hefðu verið yngri en 18 ára þegar þeir frömdu glæpi sína. 

Samra áfrýjaði dauðadóminum á grundvelli þess að ekki ætti að dæma fólk til dauða fyrir glæpi sem það fremur fyrir 21 árs aldur en hæstiréttur synjaði því.

Lögmenn hans leituðu til ríkisstjóra Alabama, Kay Ivey, og  óskuðu eftir því að hún miskunnaði sér yfir Samra en hún neitaði. Ivey segir að aftakan í gær sýni að réttvísin hafi náð fram að ganga og að Alabama muni ekki láta morð viðgangast, sama af hvaða tagi þau eru.

Í Tennessee óskaði Johnson eftir því við Bill Lee ríkisstjóra að aftökunni yrði frestað vegna þess að hann hefði frelsast í fangelsi með aðstoð Sjöunda dags aðventistum en Lee neitaði. Skipti þar engu að kaþólskir biskupar, kirkjan hans og dóttir fórnarlambsins hafi óskað eftir því að honum yrði sýnd miskunn.  

Áður en Johnson var tekinn af lífi sagði hann að hann fæli líf sitt í þeirra hendur. Þinn verði vilji, í Jesúm nafni bið ég. Amen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert