Ferðamaðurinn endaði úti á túni

Ferðamennirnir tveir ætluðu í fagra þorpið Å en enduðu á …
Ferðamennirnir tveir ætluðu í fagra þorpið Å en enduðu á bænum Aa í 1.310 kílómetra fjarlægð. Ljósmynd/Petr Šmerkl

Það má segja að það hafi verið heldur misheppnuð ferð er tveir kínverskir ferðamenn óku af stað og enduðu úti á túni í 1.310 kílómetra frá þeim stað sem þeir ætluðu á. Ætluðu þeir til Å í Lofoten í Norður-Noregi en voru furðu lostnir þegar þeir runnu inn á hlað hjá Magni Aa-Berge á bænum Aa í Hyen í Vestur-Noregi.

Það vill svo óheppilega til að Å og Aa er borið fram með sama hætti og verra er að kort Google gerir engan greinarmun.

Magni segist hafa tekið eftir ráðvilltum Kínverja á túninu sínu í gær. „Fyrst var ég ekkert að spá í þessu vegna þess að í þorpinu eru margir Kínverjar að starfa við skipasmíði. Ég hélt að þetta væri kannski einn þeirra sem vildi spyrja mig um eitthvað,“ er haft eftir hana í umfjöllun norska ríkisútvarpsins NRK.

Leiðin er löng frá Aa til Å.
Leiðin er löng frá Aa til Å. Kort/Google

Maðurinn sem var á túninu talaði ekki stakt orð í ensku og benti á heimilisfang í farsímanum sínum. „Þetta var nú ekki alveg einfalt og talsverður misskilningur hjá okkur báðum þegar við reyndum að tala saman,“ segir Magni.

Sannfærður um að hann var á réttum stað

Á meðan húsfreyjan reyndi hvað hún gat að skilja að hverju maðurinn væri að leita sat kona hans í bílnum og beið. Það var fyrst þegar maðurinn stækkaði kortið í símanum að Magni áttaði sig á því að maðurinn hélt að hann væri kominn ögn lengra norður.

Å
Å Ljósmynd/Matthew Mayer

Hún reyndi hvað hún gat að útskýra fyrir ferðamanninum að hann væri verulega langt frá Å í Lofoten. Þá benti maðurinn á hús nágrannans og spurði hvort það væri þangað sem hann ætti að fara. „Hann var alveg sannfærður um að hann væri á réttum stað.“

Er ferðamaðurinn loks áttaði sig á því að hann væri ekki á réttum stað gat Magni og móðir hennar vísað honum á næsta hótel, enda ólíklegt að hann myndi leggja í 1.300 kílómetra ferðalag.

mbl.is