Deilt um hæfi EFTA-dómara

Páll Hreinsson, forseti EFTA-dómstólsins.
Páll Hreinsson, forseti EFTA-dómstólsins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Norskir fjölmiðlar, þar á meðal dagblaðið VG, hafa undanfarna daga fjallað um mál norsku útgerðarinnar Fosen-Linjen og almenningssamgöngufyrirtækisins AtB, hlutafélags í eigu fylkisins Þrændalaga, þar sem tekist er á um útboð ferjusiglinga yfir Þrándheimsfjörðinn og rætt um hæfi EFTA-dómara eftir frestun málflutnings í kjölfar þess að dómari slasaðist alvarlega og fékk síðar hjartaáfall.

Málið kom til kasta EFTA-dómstólsins, sem réttar í málum á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, haustið 2017 eftir að Lögmannsréttur Frostaþings, dómstóll á millidómstigi norsks réttarkerfis, hafði beðið dómstól EFTA um ráðgefandi álit í málinu.

Var þar spurt um skilyrði skaðabótaábyrgðar AtB gagnvart Fosen-Linjen vegna meintra reglubrota við útboð ferjusiglinga yfir fjörðinn og þar deilt um hvort sérhvert brot á reglunum gæti haft í för með sér skaðabótaskyldu eða einungis brot sem teldust nógu alvarleg í skilningi reglna um skaðabótaábyrgð ríkisins að EES-rétti.

Komst EFTA-dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að sérhvert brot gæti leitt til skaðabótaskyldu og vakti sú túlkun dómstólsins töluverð viðbrögð meðal fræðimanna á sviði EES-réttar. Hafa margir, þar á meðal lagaprófessorinn Finn Arnesen, forstöðumaður Evrópuréttarmiðstöðvarinnar, dregið það í efa að sú niðurstaða EFTA-dómstólsins sé lögfræðilega rétt, en Arnesen skrifar í grein á lögfræðifréttavefinn Rett24 í síðustu viku að niðurstaðan sé ekki í samræmi við dómaframkvæmd Evrópudómstólsins.

Vísað á ný til EFTA-dóms

Í fyrravor, þegar kom að dómsuppkvaðningu við Lögmannsrétt Frostaþings, varð niðurstaðan sú, að dómurinn fylgdi ekki áliti EFTA-dómstólsins og komst að annarri niðurstöðu um bótaábyrgð, þar sem AtB var talið bótaskylt gagnvart Fosen-Linjen og gert að greiða því síðarnefnda 1,5 milljónir norskra króna, aðeins brot af þeim 83 milljónum NOK sem upphafleg bótakrafa Fosen-Linjen hljóðaði upp á.

Gekk málið næst til Hæstaréttar Noregs þar sem niðurstaðan varð að vísa málinu á ný til EFTA-dómstólsins með því að fara fram á nýtt ráðgefandi álit þaðan og var það gert í fyrra, fyrirspurnin til dómstólsins þó einfaldari í sniðum en 2017. Fyrrverandi forseti EFTA-dómstólsins, Carl Baudenbacher, sem lét af störfum í fyrra eftir 15 ár í embætti þar, lét þá mjög til sín heyra opinberlega og sagði, að þessi endurvísun til EFTA-dómstólsins markaði „endalok réttarríkisins“.

Baudenbacher atyrti mjög lagaprófessorinn Halvard Haukeland Fredriksen, sem hafði hvatt til þess að Hæstiréttur óskaði eftir nýju áliti EFTA-dómstólsins, og sagði Baudenbacher í fyrirlestri, sem hann hélt á ráðstefnu norsku vinnuveitendasamtakanna NHO í maí í fyrra, og Rett24 greindi meðal annars frá, að ekki væri nokkur ástæða til að krefjast nýrrar málsmeðferðar hvert sinn sem dómaraskipti yrðu hjá EFTA-dómstólnum. Sagði Baudenbacher að slík vinnubrögð yrðu „the end of the rule of law“.

Sagði prófessor beita brögðum

„Ég er vonsvikinn yfir því að lagaprófessor [Fredriksen], sem með réttu ætti að vera nemendum sínum fyrirmynd, grípi til slíkra bragða,“ sagði Baudenbacher á ráðstefnunni. Taldi hann einsýnt að fyrir Fredriksen hefði einfaldlega vakað að fá fram ólík svör EFTA-dómstólsins með nýjum mönnum, en forseti dómstólsins er nú Páll Hreinsson, fyrrverandi hæstaréttardómari og prófessor í stjórnsýslurétti við Háskóla Íslands.

Ólafur Jóhannes Einarsson, dómritari EFTA-dómstólsins, lýsti furðu sinni á ummælum Baudenbachers þegar mbl.is ræddi við hann. Kvað Ólafur dæmi um að sömu mál hefðu komið á ný til kasta Evrópudómstólsins og EFTA-dómstólsins og þætti slíkt alvanaleg framkvæmd.

Annar angi málsins hefur þó í raun vakið meiri athygli í kjölfar fréttaflutnings norskra fjölmiðla, en það er sú ákvörðun Páls Hreinssonar að fresta málflutningi fyrir EFTA-dómstólnum eftir að Per Christiansen, meðdómari hans, slasaðist alvarlega er tré féll á hann í mars og greindu Rett24 og fleiri fjölmiðlar frá þessu, en Christiansen þurfti að gangast undir fjölda aðgerða í kjölfar slyssins.

Frestaði Páll málflutningi til 13. maí og sætti fyrir vikið gagnrýni Fosen-Linjen sem taldi þar með brotið gegn málsmeðferðarreglum dómstólsins. „Sú gagnrýni byggir á misskilningi,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is. Sú ákvörðun dómsforseta, að fresta málflutningi frekar en að flytja málið með varadómurum í stað fastra dómara dómstólsins, er innan þeirra heimilda sem forseti hefur samkvæmt málsmeðferðarreglum EFTA-dómstólsins.

Samtal við forseta Hæstaréttar

Það var svo núna í maí sem VG greindi frá því að Toril Marie Øie, dómsforseti Hæstaréttar Noregs, hefði sagt blaðinu frá því að mál Fosen-Linjen hefði borið á góma í samtali þeirra Per Christiansen í fyrravetur. Átti það sér stað, áður en Hæstiréttur fór fram á nýtt álit EFTA-dómstólsins, og hefði Christiansen þar sagt dómsforsetanum að EFTA-dómstóllinn tæki það ekki óstinnt upp falaðist Hæstiréttur eftir nýju áliti dómstólsins.

„Strax í kjölfar þess [fréttar VG 10. maí] kom bréf til EFTA-dómstólsins frá Fosen-Linjen þar sem þess var krafist að dómarar hans vikju sæti,“ segir Ólafur frá. „Per Christiansen fékk hjartaáfall um kvöldið. Var ástand hans mjög alvarlegt en hann er nú á batavegi en viðbúið er að hans bíði löng endurhæfing. Ola Mestad prófessor var kallaður til sem varadómari og tók sæti í málinu.“ Frá þessu greindi VG einnig.

Í áðurnefndri grein skrifar prófessor Finn Arnesen að ástæða þess að varadómari hafi verið settur í málinu sé sáraeinföld, fastadómari hafi fengið alvarlegt hjartaáfall aðeins nokkrum dögum fyrir málflutning.

Útilokar vanhæfi

„Í bréfi Fosen-Linjen var því haldið fram að Páll væri einnig vanhæfur og í því sambandi vísað til ákvörðunar hans um frestun málflutnings og ummæla í fréttabréfi dómstólsins,“ segir Ólafur, en ummælin í fréttabréfinu voru á þá leið að Hæstiréttur Noregs hefði nýlega farið þess á leit við EFTA-dómstólinn að hann fjallaði á ný um álitaefni málsins. Væri beiðnin ekkert annað en gott dæmi um lögfræðilega umræðu sem ætti sér stað milli EFTA-dómstólsins og Hæstarétta EFTA-ríkjanna.

„Ummælin, sem eru eðlileg af hálfu forseta EFTA-dómstólsins, fela ekki í sér að Páll hafi tekið efnislega afstöðu í málinu,“ útskýrir Ólafur og segir, að í ljósi þessa hafi samdómarar hans komist að þeirri niðurstöðu að Páll væri ekki vanhæfur.

Undir þessi sjónarmið tekur prófessor Finn Arnesen í grein sinni í Rett24 þar sem hann gagnrýnir málflutning Baudenbachers og segir þar meðal annars: „Það sem verður að teljast merkilegt eru brigslyrði Baudenbachers um leynda ætlun [prófessors Fredriksens um að knýja fram aðra niðurstöðu EFTA-dómstólsins]. Leggi maður það á sig að lesa bók hans „Judicial Independence. Memoirs of a European Judge“ [Sjálfstæði dómstóla. Endurminningar Evrópudómara] kemur í ljós að hún er í léttum dúr.“

„Ummæli Baudenbachers eru mjög undarleg,“ segir Ólafur dómritari að lokum, „og ekki samrýmanleg stöðu hans sem fyrrverandi forseta EFTA-dómstólsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert