Skar föður sinn á háls í sjálfsvörn

Morðið átti sér stað í norðurhluta Rómar á Ítalíu.
Morðið átti sér stað í norðurhluta Rómar á Ítalíu. AFP

Ítalskri stúlku sem myrti ofbeldisfullan föður sinn hefur verið sleppt úr haldi lögreglu. Stúlkan sem er 19 ára gömul er sögð hafa myrt föður sinn í norðurhluta Rómar í sjálfsvörn. Hún verður ekki sótt til saka fyrir morð heldur mögulega fyrir að hafa beitt sjálfsvörn en það gæti verið að sú ákæra verði látin niður falla. BBC greinir frá. 

Saksóknari málsins sagði að dóttirin Deborah Sciacquatori hafi grátbeðið föður sinn að hætta ofbeldinu. „Það er möguleiki að á næstu tveimur vikum verði málið látið niður falla í ljósi þeirra upplýsinga sem við vitum núna,“ sagði Francesco Menditto saksóknari. 

Málið hefur vakið mikla athygli á Ítalíu og vakið spurningar um ofbeldi og þar með talið hvenær sjálfsvörn er lögmæt og hvenær ekki. 

Fyrrverandi hnefaleikakappi og kenndi dótturinni box

Maðurinn hét Lorenzo Sciacquatori og var 41 árs fyrrverandi hnefaleikakappi. Hann var þekktur fyrir að beita ofbeldi og sat inni fyrir að ráðast á lögreglumann árið 2016. Tengdaforeldrar hans sögðu hann hafa beitt dóttur þeirra ofbeldi í yfir 20 ár. 

Dóttir hans er einnig sögð hafa sætt ofbeldi af hans hálfu í fjölda ára. Móðir hennar aðhafðist ekkert af ótta við að hún yrði tekin af henni og af heimilinu. 

Samkvæmt heimildum þarlendra miðla átti atvikið sér stað þegar faðirinn kom heim dauðdrukkinn á sunnudagsmorgni og hafði í hótunum við konu sína og dóttur. Það endaði með því að dóttir hans lokaði sig inni í herbergi með ömmu sinni til að koma í veg fyrir að hann gætti beitt þær ofbeldi. 

Hann náði til þeirra og segir saksóknari að dóttirin hafi sagt: „Pabbi, stopp. Ekki gera meira.“ Hún hafi þá varið sig með því að kýla hann í höfuðið. Faðir hennar hafði kennt henni box sem er áhugamálið hennar. 

Dóttirin hafi reynt að yfirgefa heimilið með móður sinni og ömmu en faðir hennar hótaði þeim og meinaði þeim útgöngu. Hún er sögð hafa kýlt hann aftur og skorið hann á háls með hnífi sem hún hafði tekið úr eldhúsinu. 

Áverkarnir urðu til þess að honum blæddi út. 

Eftir að hafa skorið hann á háls reyndi hún að binda um sárið. Samkvæmt vitnum á hún að hafa sagt þarna: „Ekki yfirgefa mig. Ég elska þig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert