Johnson sigurvænlegur en umdeildur

Verður Boris Johnson næsti leiðtogi breska Íhaldsflokksins?
Verður Boris Johnson næsti leiðtogi breska Íhaldsflokksins? AFP

Búist er við harðri baráttu um leiðtogastöðuna í Íhaldsflokknum í Bretlandi, með óvæntum vendingum og jafnvel bakstungum, eftir að Theresa May forsætisráðherra tilkynnti í gær að hún hygðist segja af sér. Að sögn breskra dagblaða hafa allt að átján þingmenn hug á að bjóða sig fram en fæstir þeirra eru taldir eiga raunhæfa möguleika á að fara með sigur af hólmi. Talið er að sumir þeirra gefi kost á sér með það fyrir augum að hætta við framboðið síðar og lýsa yfir stuðningi við líklegan sigurvegara í von um að hreppa virðulegt ráðherraembætti.

Theresa May tilkynnti í tilfinningaþrunginni ræðu í gær að hún hygðist láta formlega af störfum sem leiðtogi Íhaldsflokksins 7. júní. Hún verður áfram í embætti forsætisráðherra þar til nýr leiðtogi stjórnarflokksins tekur við.

Brandon Lewis, formaður Íhaldsflokksins, sagði að fresturinn til að tilnefna leiðtogaefni rynni út í vikunni sem hefst 10. júní. Þingmenn flokksins myndu síðan kjósa á milli leiðtogaefnanna og fyrirkomulagið yrði þannig að í hverri atkvæðagreiðslu félli einn frambjóðandi úr baráttunni, þ.e. sá sem fengi fæst atkvæði. Þingmennirnir halda atkvæðagreiðslunum áfram þar til tvö leiðtogaefni verða eftir og félagar í flokknum kjósa síðan á milli þeirra tveggja í póstatkvæðagreiðslu. Félagar flokksins eru um 120.000.

Lewis sagði að stefnt væri að því að atkvæðagreiðslunum í þingflokknum lyki ekki síðar en í lok júní og að niðurstaða leiðtogakjörsins lægi fyrir áður en sumarhlé þingsins hefst, 20. júlí.

Margir kallaðir

Á meðal þeirra sem hafa gefið kost á sér í leiðtogastöðuna eru Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra, Dominic Raab, fyrrverandi brexit-ráðherra, Michael Gove umhverfisráðherra, Jeremy Hunt utanríkisráðherra, Sajid Javid innanríkisráðherra og Andrea Leadsom, fyrrverandi leiðtogi neðri deildar þingsins.

Bresk dagblöð telja Boris Johnson vera sigurstranglegastan vegna þess að hann er vinsælasta leiðtogaefnið meðal félaga í flokknum. Dagblaðið The Times hefur birt skoðanakönnun sem bendir til þess að 37% þeirra myndu vilja að Johnson verði næsti leiðtogi flokksins og næstur kom Dominic Raab með 13%. Talið er þó að margir þingmenn flokksins hafi efasemdir um að Boris Johnson sé rétti maðurinn til að fara fyrir flokknum og gegna forsætisráðherraembættinu.

Johnson er fyrrverandi borgarstjóri Lundúna og tók þátt í baráttunni fyrir því að Bretland gengi úr Evrópusambandinu fyrir þjóðaratkvæðið í júní 2016 þegar útgangan var samþykkt með 52% atkvæðanna. Hann varð utanríkisráðherra í stjórn May í júlí 2016 eftir að hún var kjörin leiðtogi flokksins og varð forsætisráðherra. Hann sagði sig úr ríkisstjórninni tveimur árum síðar eftir að hún samþykkti brexit-samning May við Evrópusambandið.

Óttast um sætin sín

Johnson er mjög umdeildur í þingflokki breskra íhaldsmanna. Hann nýtur stuðnings Jacobs Rees-Moggs, sem fer fyrir hópi harðra brexit-sinna í þingflokknum, og margra annarra andstæðinga Evrópusambandsins. Hann er þó einnig talinn hafa eignast marga óvini í þingflokknum eftir að hafa reitt þá til reiði með framgöngu sinni í stjórnmálunum.

Johnson þykir gæddur miklum persónutöfrum og stuðningsmenn hans segja hann best til þess fallinn að fara fyrir Íhaldsflokknum í næstu kosningum til að afstýra því að hann missi mikið fylgi til Brexit-flokksins undir forystu Nigels Farage. Talið er að þingmenn, sem hafa óbeit á Johnson, gætu þurft að velja á milli þess að fallast á hann sem flokksleiðtoga og þess að missa sæti sitt á þinginu í næstu kosningum.

Komist Johnson í gegnum atkvæðagreiðslurnar í þingflokknum er talið líklegt að hann fari með sigur af hólmi í póstaatkvæðagreiðslunni vegna vinsælda hans meðal félaga flokksins.

Það hefur þó sýnt sig að það reynst varasamt að veðja á sigurstranglegasta frambjóðandann, eins og er nánar útskýrt í ítarlegri útgáfu þessarar fréttaskýringar í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert