Stökk af fundi og handtók mann

AFP

Óvænt atvik varð til þess að gera þurfti hlé á blaðamannafundi hjá lögreglunni í Queensland en lögreglumaðurinn sem var að tala stökk af stað og handtók mann sem hljóp þar fram hjá.

Lögreglumaðurinn Daren Edwards, sem er fyrrverandi ruðningsleikmaður, brást fljótt við þegar reiður faðir kom hlaupandi á eftir manni skammt frá flötinni fyrir utan lögreglustöðina þar sem blaðamannafundur var haldinn. „Hann hegðaði sér ósæmilega við dóttur mína,“ æpti faðirinn. Edwards stökk af stað og felldi þann grunaða og handtók. 

Maðurinn, sem var handtekinn, var afar ósáttur og harðneitaði að hafa gert eitthvað á hlut dóttur mannsins. „Ég gerði ekkert. Ég sagði ekkert við hana. Ég var bara að koma út úr réttarsalnum.“

Dóttirin, sem er 19 ára, hefur lagt fram kæru á hendur manninum og segir að hann hafi spurt hana hvort hún væri ólofuð. Hann sagði við hana að hún væri falleg og hann vildi gefa henni alls konar hluti. Hún segist hafa reynt að reka manninn á brott með þeim orðum að hún hefði engan áhuga. 

Í frétt AFP kemur fram að maðurinn hafði verið til vandræða skömmu áður og reynt að trufla gang réttvísinnar með því að grípa fram í fyrir Edwards á blaðamannafundinum. Ekki kemur aftur á móti fram um hvað blaðamannafundurinn snerist. 

mbl.is