Humarskandall í franskri pólitík

Francois de Rugy situr hér hægra megin á myndinni ásamt ...
Francois de Rugy situr hér hægra megin á myndinni ásamt Emmanuel Macron Frakklandsforseta. AFP

Francois de Rugy, umhverfisráðherra í ríkisstjórn Frakklands, sagði af sér embætti í dag í kjölfar stífrar fjölmiðlaumfjöllunar um meinta eyðslu hans í fjölmargar humarmáltíðir og kampavín á kostnað skattgreiðenda.

Franski fjölmiðillinn Mediapart, sjálfstæður vinstrisinnaður miðill, hefur meðal annars birt myndir úr veislum sem de Rugy hélt  á meðan að hann gegndi embætti forseta franska þingsins, en því embætti gegndi hann uns hann tók við lyklunum að umhverfisráðuneytinu síðasta haust.

Í veislum á heimili de Rugy var boðið upp á humar og kampavín og í meðfylgjandi fréttum hefur verið látið að því liggja að þessir viðburðir, sem haldnir voru á kostnað skattborgara, hafi ekki tengst starfi de Rugy fyrir þjóðþingið hið minnsta heldur hafi hann einfaldlega stundað það að bjóða vinum sínum upp á humar og eðalvín á kostnað franska ríkisins.

de Rugy hefur neitað þessu staðfastlega og hefur meira að segja sagt að hann sjálfur hafi ofnæmi fyrir humar, en lætur þó af embætti.

„Árásirnar sem beinst hafa gegn fjölskyldu minni neyða mig til þess að stíga til hliðar,“ sagði de Rugy er hann tilkynnti um afsögn sína í dag, en hann er náinn bandamaður Emmanuels Macron Frakklandsforseta og næstæðsti ráðherra ríkisstjórnarinnar, samkvæmt frétt AFP um málið.

Humar- og kampavínsskandallinn hefur vakið mikla reiði á samfélagsmiðlum, ekki síst í hópi þeirra sem kenna sig við gulvestungahreyfinguna og Mediapart hefur einnig fjallað um fleiri mál sem hafa verið óþægileg fyrir ráðherrann, til dæmis það yfirmaður í ráðuneyti hans hafi búið í félagslegri íbúð í París allt frá árinu 2001.

Ljóst er að Emmanuel Macron þarf að finna sér nýjan umhverfisráðherra, aftur, en forveri de Rugy í embætti hætti störfum í fyrra eftir að hafa sagt að kollegar hans í ríkisstjórninni væru ekki að gera nóg til þess að berjast gegn loftslagsvánni.

Francois de Rugy með eiginkonu sinni, blaðakonunni Severine Servat.
Francois de Rugy með eiginkonu sinni, blaðakonunni Severine Servat. AFP
mbl.is