Vilja tryggja kjarnorkusamkomulagið

Vel fór á með Macron og Pútín á G20-fundinum í …
Vel fór á með Macron og Pútín á G20-fundinum í Osaka í Japan í síðasta mánuði. AFP

Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Vladimir Pútín Rússlandsforseti ákváðu á símafundi sínum í dag að sameinast um aðgerðir til að tryggja kjarnorkusamkomulagið sem vesturveldin, Rússar og Kínverjar gerðu við Íran árið 2015.

Segja kollegarnir að samkomulagið sé mikilvægur þáttur í að tryggja öryggi í Mið-Austurlöndum. Hassan Rouhani, forseti Íran, hvatti í dag Evrópuríkin til að hraða aðgerðum til að tryggja samkomulagið, sem segja má að hafi hangið á bláþræði síðan Bandaríkin sögðu sig frá því í fyrra.

Í kjölfarið lagði Bandaríkjastjórn háa þvingunartolla á olíuútflutning Írans með það fyrir augum að veikja klerkastjórn landsins.

„Evrópa verður að hraða áformum sínum til að tryggja réttmæta hagsmuni Íran og vopnahlé í efnahagsstríðinu Bandaríkjanna og Íran,“ sagði Rouhani við Macron, að því er fram kemur í yfirlýsingu frá írönskum stjórnvöldum.

„Íranar er reiðubúnir að halda öllum dyrum opnum til þess að tryggja þennan grundvallarsamning.“

Evrópuríkin hafa áður ítrekað lýst sig tilbúin að halda í samkomulagið, en ætlast þá til þess að Íranar haldi sín heit. Íranski herinn reyndi í síðustu viku að hertaka breskt olíuskip, án árangurs, en í dag bárust fréttir af því að þeim hefði tekist að haldleggja erlent skip og tólf manna áhöfn þess, sem þeir segja hafa reynt að smygla milljón lítrum af olíu um Persaflóa.

„Það sem hefur skeð í Teheran [höfuðborg Írans] síðustu daga er óásættanlegt,“ sagði Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, í dag.

mbl.is