Sér ekki fyrir endann á mótmælunum

Mótmælendur fylla götur Hong Kong í morgun.
Mótmælendur fylla götur Hong Kong í morgun. AFP

Fjölmenn mótmæli hafa haldið áfram í Hong Kong þar sem krafist er lýðræðisumbóta og skerðingu á borgaralegu frelsi mótmælt en mótmælin hafa staðið yfir vikum saman. Undirliggjandi er áralöng reiði í garð stjórnvalda í Kína.

Mótmælin hafa nú staðið yfir í um sjö vikur og segir í frétt AFP að ekkert lát virðist á þeim. Upphaflega snerust þau um lagafrumvarp sem gerði ráð fyrir að hægt yrði að framselja einstaklinga frá sjálfstjórnarhéraðinu til meginlands Kína.

AFP

Frumvarpið var í kjölfarið dregið til baka en mótmælin héldu áfram og hafa þróast yfir í hreyfingu sem kallað hefur eftir lýðræðisumbótum og frelsi sem fyrr segir. Mótmælin eru þau fjölmennustu sem átt hafa sér stað í Hong Kong í seinni tíð.

Haft er eftir Anítu Poon, þátttakanda í mótmælunum, að stjórnvöld hefðu ekki komið til móts við kröfur mótmælenda og fyrir vikið héldu mótmælin áfram. Mótmælendur segja kínversk stjórnvöld hafa skert ýmis réttindi íbúa Hong sem þeir hafi átt að njóta samkvæmt samkomulagi sem gert var þegar Bretar afhentu Kína svæðið 1997.

AFP

Mótmælin hafa að mestu farið friðsamlega fram en lögreglan hefur þó ítrekað lent í átökum við hluta af mótmælendum sem telja að friðsöm mótmæli hafi litlu skilað. Hefur lögreglan meðal annars beitt táragasi og gúmmíkúlum í þeim átökum. 

Lögreglan í Hong Kong hefur aukið öryggisgæslu í miðborginni og til að mynda í kringum lögreglustöðvar.

mbl.is