N-Kórea sögð hafa stolið 1,6 milljörðum

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu.
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu. AFP

Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa með netárásum sínum stolið um 1,6 milljörðum dala, sem samsvarar um 195 milljörðum kr., til að fjármagna vopnaáætlun sína. Þetta kemur fram í skýrslu sem unnin var fyrir Sameinuðu þjóðirnar og sem BBC segir hafa verið lekið.

Skýrslan er sögð vera trúnaðarmál, en í henni er fullyrt að norður-kóresk yfirvöld hafi náð að safna fénu með árásum á banka og gjaldeyrisala sem versla með rafmynt.

Hefur BBC eftir heimildamönnum sínum að Sameinuðu þjóðirnar séu nú með 35 netárásir til rannsóknar.

Norðurkóreski herinn skaut tveimur eldflaugum á loft í tilraunaskyni í dag og er það fjórða slík tilraun hersins sl. hálfa mánuð.

Norður-kóresk yfirvöld hafi náð að safna fé með árásum á …
Norður-kóresk yfirvöld hafi náð að safna fé með árásum á banka og gjaldeyrisala sem versla með rafmynt. Bitcoin rafmynt, mynd úr safni. AFP

Afla tekna með leiðum sem er erfiðara að greina

Skýrsluna hefur nefnd sem fer með refsiaðgerðir gegn Norður-Kóreu, fyrir hönd Öryggisráðsins, fengið afhenta. Þar kemur fram að norður-kóresk yfirvöld „noti netið til að fremja sífellt flóknari árásir til að stela sjóðum frá fjármálastofnunum og rafmyntaskiptistöðum til að afla sér tekna“.

Þá eru sérfræðingar líka sagðir vera að rannsaka hvort að net-námagröftur sé nýttur til að græða erlendan gjaldeyri.

Fram kemur í skýrslunni að árásir Norður-Kóreu á rafmyntaskiptistöðvar geri ríkinu fært að „afla tekna með leiðum sem erfiðara er að greina og sem stjórnvöld hafi minni yfirsýn um en regluverk hins hefðbundna bankageira“.

Hafa brotið gegn viðskiptabanni

Þá kemur einnig fram í skýrslunni að Norður-Kórea hafi brotið gegn viðskiptabanni Sameinuðu þjóðanna með ólöglegum skipaflotningu, sem og með því að fá afhenda hluti tengda gereyðingavopnum.

Frá því árið 2006 hefur Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna haldið úti viðskiptaþvingunum gegn Norður-Kóreu sem banna útflutning á kolum, járni, blýi og sjávarfangi. Einnig hefur legið bann við innflutningi á hráolíu og unnu eldsneyti.

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, féllst á það á fundi með Donald Trump Bandaríkjaforseta í Singapore síðasta sumar að hætta kjarnavopnatilraunum. Þá myndi Norður-Kórea einnig hætta að senda á loft meðaldrægar eldflaugar.

Fundi leiðtoganna í Hanoi í Víetnam í febrúar á þessu ári lauk hins vegar án samkomulags og hafa viðræður um afvopnavæðingu kjarnavopna á Kóreuskaga í kjölfarið synt í strand.

„Við áköllum öll þau ríki sem aðild eiga að, að grípa til aðgerða gegn illviljuðum netaðgerðum Norður-Kóreu, sagði talskona bandaríska utanríkisráðuneytisins við Reuters um skýrsluna. „Þær framleiða tekjur sem styðja ólögmæta gjöreyðingavopna og eldflaugaáætlun“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert