Sögð sjá fram á skort án samnings

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands. Skrifstofa hans neitaði að tjá sig ...
Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands. Skrifstofa hans neitaði að tjá sig um gögnin sem Sunday Times byggir fréttaflutning sinn á. AFP

Breska ríkisstjórnin telur að Bretar stæðu frammi fyrir skorti á eldsneyti, mat og lyfjum ef svo færi að ríkið gengi úr Evrópusambandinu án samnings. Þá telur hún líklegt að setja þyrfti upp hörð landamæri á milli Norður-Írlands og Írlands og mögulegt að truflanir gætu orðið í helstu útflutningshöfnum Bretlands um allt að þriggja mánaða skeið.

Þetta fullyrðir breska blaðið Sunday Times í frétt sinni í dag og byggir á skjölum frá breska stjórnarráðinu, sem lekið var til blaðsins.

Skjölin eru sögð greining breskra stjórnvalda á líklegustu skammtímaáhrifunum af Brexit án samnings og munu hafa verið tekin saman í þessum mánuði undir vinnuheitinu Operation Yellowhammer.

Times segir skjölin vera háleynileg og að um sé að ræða fágæta innsýn í þær aðgerðir sem verið er að undirbúa af hálfu ríkisstjórnarinnar til þess að koma í veg fyrir að Bretar steypist fram af bjargbrúninni 31. október næstkomandi, er ráðgert er að ríkið gangi út úr ESB – með samning eður ei.

Skrifstofa Boris Johnson forsætisráðherra vildi ekki bregðast við fyrirspurn Sunday Times um skjölin og sagðist ekki tjá sig um gögn sem hefðu lekið frá stjórnvöldum.

Segir um „hræðsluáróður“ að ræða

Kwasi Kwarteng orkumálaráðherra Bretlands hefur þegar vísað þeim áhyggjum af skorti á nauðsynjavörum í kjölfar Brexit án samnings sem fjallað var um í Sunday Times alfarið á bug.

Kwasi Kwarteng, orkumálaráðherra Bretlands.
Kwasi Kwarteng, orkumálaráðherra Bretlands. AFP

Hann segir að það sem blaðið vitni til sé ekki það sem líklegast sé talið að muni eiga sér stað, heldur eitthvað sem gæti gerst og auðvitað þurfi ríkisstjórnin að vera undir allt búin.

Í samtali við Sky News í morgun sagði hann að það væri mikill „hræðsluáróður“ í gangi og sagði að þeir sem fyrir honum stæðu væru með svokallað „Óttaverkefni“ í gangi (e. Project Fear).

Hann sagði Breta verða að undirbúa sig fyrir að ganga út án samnings og að ríkisstjórnin yrði „algjörlega reiðubúin“ undir að gera það 31. október.

Boris reynir að fá nýjan samning

Boris Johnson forsætisráðherra hefur síðan hann tók við embætti reynt að snúa taflinu við og fá ráðamenn ESB-ríkja til þess að fallast á að setjast aftur að samningaborðinu. Í málflutningi sínum hefur hann lagt áherslu á að ríki ESB muni einnig tapa, komi til þess að Bretar gangi út án samnings, sem Bretar séu þó reiðubúnir að gera. 

Hann mun í vikunni fara til meginlandsins og funda með bæði Angelu Merkel Þýskalandskanslara og Emmanuel Macron Frakklandsforseta.

Búist er við að hann muni segja þeim báðum, augliti til auglitis, að Bretland muni ganga út, sama hvað, 31. október næstkomandi og að eina leiðin til þess að ná samningum sé sú að Evrópusambandið setjist niður og semji um aðra lausn en þá sem Theresa May fór með í ítrekaðar fýluferðir fyrir breska þingið í Westminster.

Frétt Reuters um málið

Frétt BBC um málið

mbl.is