Hafa áhyggjur af hvítum, ungum drengjum

Hætturnar sem fylgja vafri á netinu er ekki nýtt umræðuefni …
Hætturnar sem fylgja vafri á netinu er ekki nýtt umræðuefni meðal foreldra og kennara, en nýlegar skotárásir vestanhafs hafa endurvakið vangaveltur um hvað fjölskyldur geta gert og ættu að gera þegar kemur að uppeldi hvítra drengja í Bandaríkjunum. AFP

Bandarísk móðir, sem hefur áhyggjur af því að skoðanir öfgamanna geti hæglega eitrað huga drengja sem eyða miklum tíma í tölvunni, deildi áhyggjum sínum á Twitter. Færsla hennar hefur vakið hörð viðbrögð, bæði frá þeim sem deila áhyggjunum og þeim sem setja spurningarmerki við fullyrðinguna. 

Óhætt er að segja að við lifum á tímum þar sem hver sem er getur birt nánast hvað sem er á veraldarvefnum og svo virðist sem sérstaklega hvítir drengir eigi í hættu á að mótast af róttækum skoðunum. Staðreyndin er sú að mikill meirihluti árásarmanna sem framkvæma skotárásir í Bandaríkjunum eiga þrennt sameiginlegt: Þeir eru ungir, hvítir og karlkyns. 

Birta yfirlýsingar sem eru opnar öllum

Árásarmaðurinn sem myrti 22 mann­eskj­ur í versl­un Walmart í borg­inni El Paso í Texas fyrr í þessum mánuði birti yf­ir­lýs­ingu á net­inu þar sem hann kvaðst ótt­ast „inn­rás fólks af rómönsku bergi brotnu“ í Texas, skömmu áður en hann framdi ódæðið. Þá játaði hann í yf­ir­heyrslu hjá lög­regl­unni að „Mexí­kó­ar“ hafi verið skot­mark hans.

Árás­in var gerð aðeins nokkr­um klukku­st­un­um á und­an öðru fjölda­morði í Dayt­on í Ohio. Lögreglan sem rannsakar þá árás segir að árásarmaðurinn hafi verið undir áhrifum „ofbeldisfullrar hugmyndafræði“, en hvað árásarmanninum gekk til er ekki fyllilega vitað. 

Hætturnar sem fylgja vafri á netinu er ekki nýtt umræðuefni meðal foreldra og kennara en nýlegar skotárásir vestanhafs hafa endurvakið vangaveltur um hvað fjölskyldur geta gert og ættu að gera þegar kemur að uppeldi hvítra drengja í Bandaríkjunum. 

„Viðvörunarbjöllurnar byrjuðu að hringja fyrir um það bil ári þegar börnin okkar fóru að spyrja spurninga sem hljómuðu eins og aðalröksemdir öfgamanna,“ segir Joanna Schroeder, rithöfundur og þriggja barna móðir sem búsett er í Los Angeles. Hún er móðirin sem deildi áhyggjum sínum í færslu á Twitter. 

Hún lýsir því fyrir blaðamanni BBC hvernig tveir synir hennar hafi grínast með fullyrðingar sem hægri öfgahópar hafa haldið fram. Spurningar líkt og af hverju svartir „mega herma eftir menningu hvítra en ekki öfugt,“ segir Schroeder. Þá segir hún syni sína og vini þeirra hafa sent sín á milli svokallaðar „meme“-skopmyndir sem sýna kynþáttafordóma og karlrembu og eiga uppruna sinn að rekja til spjallborða sem öfgamenn sem síðar hafa gerst árásarmenn nýta sér. 

Sem dæmi má nefna að norski maðurinn, sem er grunaður um að myrða stjúp­syst­ur sína og ráðast grár fyr­ir járn­um inn í al-Noor-mosk­una í Bær­um í Nor­egi fyrir rúmri viku, notaði sam­bæri­legt spjall­borð til að tjá skoðanir sín­ar og hryðju­verka­menn­irn­ir í Christchurch á Nýja-Sjálandi og í El Paso í Banda­ríkj­un­um sem báðir birtu yf­ir­lýs­ing­ar á spjall­borðinu 8ch­an.

Árásarmenn hafa notað spjallborð á borð við Endchan til að deila öfgafullum skoðunum, en forverum spjallborðsins, svo sem 8chan og 4chan, var lokað þar sem notendur lýstu öfgafullum skoðunum sínum.  

Sá norski birti mynd­ir og skrifaði at­huga­semd­ir á spjall­borðinu EndCh­an sem er spjall­borð sem spratt upp, eins og 8ch­an, þegar spjall­borðinu 4ch­an var lokað. Frá þessu er greint í frétt NRK

Auðvelt að leggja hvítum unglingsdrengjum línurnar

Schroeder birti í síðustu viku færslu á Twitter þar sem hún segist hafa fylgst með samfélagsmiðlanotkun unglingsdrengjanna sinna og tekið eftir því hversu auðvelt það sé að leggja hvítum unglingsdrengjum línurnar þegar kemur að öfgafullum skoðunum, líkt og þeim sem telja hvíta kynstofninn öðrum æðri (e. white supremacist). 

Um 180.000 manns hafa líkað við færsluna og líflegar umræður hafa sprottið um efni hennar. Schoeder hefur til að mynda verið gagnrýnd fyrir að virða ekki friðhelgi einkalífs sona sinna. Á sama tíma hefur hún verið gagnrýnd fyrir að tala einungis um hvíta drengi og fyrir að gera kynþátt að aðalefni færslunnar. 

„Ég er hvítur unglingur sem eyðir miklum tíma á Youtube, Twitter og í tölvuleikjum, til afþreyingar. Ég hef íhaldssamar skoðanir af því að ég tel þær rökréttar, ekki af því að einhver persóna á netinu er að heilaþvo mig og selja mér hugmyndina um að hvíti kynstofninn sé öðrum æðri,“ segir Zack Hunter, sem svarar færslu Schroeder. 

Kennum gagnrýna hugsun og samkennd

Tom Rademacher, kennari á unglingastigi í Minnesota, segir skólakerfið geta gert meira til að grípa inn í og „koma í veg fyrir róttæknina“ án þess að taka sérstaklega fyrir ákveðnar pólitískar skoðanir. 

„Við ættum að kenna gagnrýna hugsun og samkennd. Við ættum ekki að kenna börnum hvað þau eiga að hugsa, en við getum kennt þeim hvernig á að hlusta á fólk sem er annarrar skoðunar.“ 

En af hverju er áherslan á hvíta drengi? Samkvæmt skýrslu bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, þar sem bakgrunnur árásarmanna í skotárásum í Bandaríkjunum á árunum 2000-2013 er skoðaður, kemur í ljós að 63% þeirra voru hvítir karlmenn, ungir eða miðaldra. Í gögnum sem tímaritið Mother Jones hefur tekið saman um sams konar upplýsingar fyrir tímabilið 1982-2019 kemur fram að í 110 af 114 skotárásum sem gerðar voru í Bandaríkjunum á tímabilinu voru 110 þeirra framkvæmdar af karlmönnum, 63 þeirra af hvítum karlmönnum og 29 þeirra af hvítum karlmönnum undir þrítugu. 

Christopher Wray, yfirmaður FBI, kom fyrir þingnefnd Bandaríkjaþings í júlí þar sem hann fullyrti að meirihluta skotárása í landinu mætti flokka sem „einhvers konar útgáfu af ofbeldi sem rekja má til þeirrar skoðunar að hvíti kynstofninn sé öðrum æðri“. 

Í 110 af 114 skotárásum sem gerðar voru í Bandaríkjunum …
Í 110 af 114 skotárásum sem gerðar voru í Bandaríkjunum á árunum 1982-2019 voru 110 þeirra framkvæmdar af karlmönnum, 63 þeirra af hvítum karlmönnum og 29 þeirra af hvítum karlmönnum undir þrítugu. Grafík/mbl.is

„Það stuðar mig“

Margaret Hagerman, prófessor í félagsfræði við ríkisháskólann í Mississippi, varði tveimur árum í að rannsaka auðugar hvítar fjölskyldur og hvernig umræða um kynþætti fer fram í fjölskyldunum. Margir foreldranna viðurkenndu að þeim þætti óþægilegt að ræða kynþáttafordóma almennt. 

„Það stuðar mig. Ef hvítt fullorðið fólk getur ekki rætt kynþáttafordóma í Bandaríkjunum við annað hvítt fullorðið fólk skil ég ekki hvernig foreldrar geta talið sig í stakk búna til að eiga í slíkum samræðum við börn sín,“ segir Hagerman. 

Tölfræðin bendir til þess að hvítir ungir karlmenn séu í sérstökum áhættuhópi og Rademacher segist sjá merki þess í skólastarfinu. Hann lýsir hópi drengja sem ræddu saman sín á milli og gerðu grín að kynþætti, kyni og kynhneigð líkt og gert er á spjallborðum, að því er Rademacher telur. Þegar hann ræddi við drengina kom í ljós að hegðun þeirra var eins konar varnaraðgerð, það er að þeir eru svo hræddir um að vera kallaðir kynþáttahatarar að þeir grínast með það innan hópsins, sem samanstendur allur af hvítum ungum drengjum. 

Rademacher tjáði drengjunum að þeir ættu að vera óhræddir við að láta skoðanir sínar í ljós og í kjölfarið gengu nokkrir drengjanna í nefnd í skólanum sem berst gegn kynþáttafordómum. „Þeir eru enn þá ungir drengir,“ leggur Rademacher áherslu á. „Þeir eru að finna út hvar línan liggur. Hvenær hlutir eru fyndnir og hvenær þeir eru óviðeigandi.“

Rademacher hvetur foreldra til að ræða við börn sín. Eða eins og Schroeder orðar það: „Börnin okkar verða að vita að við förum fram á að þau séu góð, hreinskilin og komi fram af virðingu, ekki af því að við höldum að þau geri það ekki nú þegar, heldur af því að við vitum að það ætti að vera þeim meðfætt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert