Kveikt í þinghúsi í mótmælum í Papúa

Þykkan reyk lagði yfir Manokwari í mótælum dagsins.
Þykkan reyk lagði yfir Manokwari í mótælum dagsins. AFP

Til óeirða kom í Papúa héraðinu í Indónesíu í dag og kveikt var í þinghúsi í Manokwari, höfuðborg Vestur-Papúahéraðs er þúsundir þyrptust út á göturnar til að mótmæla varðhaldi sem tugir námsmanna úr héraðinu voru hnepptir í um helgina.

AFP-fréttaveitan segir mótmælendur hafa náð að stöðva alla umferð um borgina, sem um 130.000 manns búa í. Nokkuð var um að eldur væri borinn að verslunum og bílum, götuskilti voru rifin niður og grjóti kastað í byggingar sem hýsa opinberar stofnanir. Þá brann þinghúsið næstum til kaldra kola.

Wiranto, almannavarnaráðherra Indónesíu, hvatti til stillingar og hét því að atvikið sem leiddi til mótmælanna yrði rannsakað. Mótmælt var í nokkrum öðrum borgum Papúa í dag.

„Þetta hefur greinilega raskað samheldni okkar sem þjóðar,“ sagði Wiranto.

Að sögn AFP hefur um áratuga skeið komið til uppreisnar gegn indónesískum yfirvöldum, sem sökuð hafa verið um mannréttindabrot gegn frumbyggjum héraðsins, Melanesíubúum. Upp úr sauð nú vegna frétta af því að yfirvöld hefðu beitt táragasi gegn 43 námsmönnum frá Papúa í indónesísku borginni Surabaya á laugardag, en þá var haldinn hátíðlegur sjálfstæðisdagur Indónesíu. Sögðu fjölmiðar í Papúa og aðgerðarsinnar óeirðalögreglu hafa ráðist inn á heimavist til að neyða þaðan út nema sem voru sagðir vera að eyðileggja indónesíska fánann.

Papúa deilir landamærum með Papúa Nýju Gíneu og liggur norður af Ástralíu. Papúa var áður hollensk nýlenda, en lýsti yfir sjálfstæði snemma á sjöundaáratug síðustu aldar. Nágrannaríkið Indónesía tók hins vegar yfir stjórn þessa auðlinda auðuga svæðis í kjölfar sjálfstæðiskosninga, styrktri af Sameinuðu þjóðunum, sem almennt voru taldar blekking.

Grjóti var kastað og eldur borinn að bílum og verslunum. …
Grjóti var kastað og eldur borinn að bílum og verslunum. Þátttakendur voru að mótmæla varðhaldi sem tugir námsmanna úr héraðinu voru hnepptir í um helgina. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert