Eyddu 100.000 dollurum sem þau fengu fyrir mistök

Williams hjónin viðurkenndu að hafa vitað að féð væri ekki …
Williams hjónin viðurkenndu að hafa vitað að féð væri ekki þeirra, en höfðu engu að síður eytt því í að kaup á jepplingi, hjólhýsi og kappakstursbíl. AFP

Hjón í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum hafa nú verið ákærð fyrir þjófnað eftir að hafa eytt tugþúsundum dollara sem viðskiptabanki þeirra lagði fyrir mistök inn á reikning þeirra.

BBC segir bankann fyrir mistök hafa greitt 120.000 dollara (15 milljónir kr.) inn á reikning þeirra og tókst þeim að eyða næstum öllu fénu. Þá eiga þau yfir höfði sér gjöld vegna 100.000 dollara yfirdráttar, eftir að hafa eytt fénu í að kaupa jeppling, hjólhýsi, kappakstursbíl og fleira.

Hjónin Robert og Tiffany Williams viðurkenndu við skýrslutöku hjá lögreglu að hafa vitað að þau ættu ekki peningana og hafa nú verið ákærð fyrir þjófnað og fyrir að taka við stolinni eign.

Dagblaðið Williamsport Sun-Gazette segir bankann hafa átt að greiða féð inn á reikning fjárfestingafyrirtækis. Villan uppgötvaðist hinn 20. júní og var féð þá tekið út af reikningi Williams-hjónanna og lagt inn á réttan reikning. Hjónin höfðu hins vegar þá þegar eytt um 107.000 dollurum án þess að hafa sett sig í samband við bankann.

mbl.is