Ákærðir fyrir að stela myndum af Macron

Emmanuel Macron Frakklandsforseti. Myndir af forsetanum hanga uppi í öllum …
Emmanuel Macron Frakklandsforseti. Myndir af forsetanum hanga uppi í öllum ríkisreknum skólum og opinberum byggingum í landinu AFP

Átta mótmælendur koma fyrir dómara í dag fyrir að fjarlægja portrettmyndir af Frakklandsforseta sem lið í loftslagsmótmælum.

AFP-fréttaveitan segir mótmælendurna, sem eru á aldrinum 23-26 ára, hafa verið ákærða fyrir þjófnað en þeir fjarlægðu í febrúar á þessu ári portrettmyndir af Emmanuel Macron af nokkrum sveitarstjórnaskrifstofum í landinu.

Mótmælendurnir voru liðsmenn hreyfingarinnar „Niður með Macron“ sem var ætlað að beina kastljósinu að meintu aðgerðaleysi franskra stjórnvalda vegna hlýnunar jarðar.

Hópurinn fullyrðir að alls hafi 128 portrettmyndum verið stolið víða um Frakkland og að 57 manns eigi yfir höfði sér ákæru um „hópþjófnað“, sem getur varðað allt að fimm ára fangelsi. Allir ríkisreknir skólar í landinu og opinberar byggingar eru með mynd af Macron uppi við.

Þetta er ekki í fyrsta eða eina skipti sem myndir af forsetanum eru nýttar í mótmælaskyni, en nokkur hundruð mótmælendur héldu til að mynda portrettmyndum af Macron á loft við mótmæli sem efnt var til í Biarritz í Frakklandi þegar fundur G7-ríkjanna fór þar fram.

„Sýnum samstöðu með fólkinu sem tók niður myndirnar af forsetakónginum okkar,“ skrifaði Jean-Luc Melenchon, leiðtogi vinstrimanna, á Twitter í gær. Þá lýsti Cecile Duflot, yfirmaður Oxfam í Frakklandi, einnig yfir stuðningi við mótmælendurna og sagði um „táknræna aðgerð að ræða, ekki hópþjófnað“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert