Kavanaugh aftur deiluefni demókrata og forseta

Hæstaréttardómarinn Brett Kavanaugh. Skipan hans er nú aftur orðinn að …
Hæstaréttardómarinn Brett Kavanaugh. Skipan hans er nú aftur orðinn að deiluefni milli demókrata og Bandaríkjaforseta. AFP

Hæstaréttardómarinn Brett Kavanaugh er nú orðinn deiluefni Donalds Trumps Bandaríkjaforseti og nokkurra úr hópi þeirra frambjóðenda sem vonast eftir að hljóta útnefningu Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar 2020. CNN segir þetta sýna áhuga forsetans og mótframbjóðenda hans að gera Kavanaugh málið að eitt af deilumálum kosninganna.

Útnefning og síðar staðfesting Kavanaugh í dómaraembættið í fyrra var umdeild vegna ásakana í hans garð um kynferðisáreitni. Nú hefur hópur frambjóðenda demókrata krafist þess að Kavanaugh verði kærður fyrir embættisglöp og er tilefnið birting New York Times á útdrætti úr nýrri bók um dómarann. Þar eru útlistaðar ásakanir í garð Kavanaughs um kynferðislega misnotkun, sem hann hefur áður neitað að séu réttar.

„Brett Kavanaugh laug að bandarísku öldungadeildinni og það er ekki síður mikilvægt að hann laug að bandarískum almenningi,“ sagði  öldungadeildarþingmaðurinn og demókratinn Kamala Harris á Twitter í gær og bætti við að skipan Kavanaugh í sæti dómara væri móðgun við þá sem leituðu sannleiks og réttlætis.

Forsetaframbjóðandinn og fyrrverandi varaforsetinn Joe Biden gekk ekki svo langt að krefjast ákæru, en sagði málið vekja áhyggjur af ráðvendni varðandi skipunarferli Kavanaugs.

Trump var ekki seinn til að koma dómaranum til varnar. „Brett Kavanaugh ætti að fara í mál við fólk fyrir meiðyrði, eða þá að dómsmálaráðuneytið ætti að koma honum til bjargar,“ sagði Trump á Twitter. „Þetta eru ótrúlegar lygar sem eru sagðar um hann.“

CNN segir þetta sýna vilja deiluaðila til aðkynda undir stuðningsmönnum sínum, auk þess sem það beini athyglinni að því að því hversu nátengd skipan hæstaréttardómara í Bandaríkjunum sé pólitíkinni.

Ásökun Christine Blasey Ford um að Kavanaugh hefði áreitt hana kynferðislega í partíi þegar þau voru unglingar vakti mikla athygli í fyrra. Kavanaugh neitaði ásökununum, en höfundar bókarinnar sem eru tveir blaðamenn New York Times sem segjast hafa sannreynt fyrri ásakanir í hans garð.

Þá komast þeir einnig að þeirri niðurstöðu að bandaríska alríkislögreglan FBI hafi ekki rætt við neinn þeirra sem hefðu geta verið vitni að atburðunum og segir CNN það vekja  spurningar á ný um að embættismenn Hvíta hússins og Repúblikanaflokkurinn hafi þvingað staðfestingu Kavanaugh í gegn.

Í bókinni er einnig greint frá ásökunum karlmanns sem var bekkjarfélagi Kavanaugh. Sá er sagður hafa gefið sig fram við bæði FBI og þingmenn varðandi atvik sem hann varð vitni að, en segir FBI ekki hafa rannsakað fullyrðingar sínar frekar.

CNN segir að Trump verða að efla stuðning sinn meðal repúblikana fyrir forsetakosningarnar á næsta ári og bendir á að forsetinn hafi í fáum málum notið viðlíka stuðnings flokksfélaga sinna og í deilunni um skipan Kavanaughs í dómaraembættið. Trump kunni því að líta svo á að ný deila um skipan dómarans komi honum vel fyrir komandi forsetakosningar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert