Réttað yfir SS-liða sem gerðist bakari

Bruno Dey mætir í réttarsal í dag.
Bruno Dey mætir í réttarsal í dag. AFP

Fyrrverandi liðsmaður SS-sveita nasista sagðist iðrast gjörða sinni fyrir dómi í Þýskalandi í dag. Maðurinn átti hlutdeild í morðum á yfir 5.000 föngum í útrýmingarbúðum nasista í síðari heimsstyrjöld. 

Bruno Dey, 93 ára, er sakaður um að hafa komið að morðum á 5.230 föngum þegar hann vann í Stutthof-útrýmingarbúðunum, nærri Gdansk í Póllandi. Réttarhöldin yfir Dey eru væntanlega með síðustu réttarhöldum yfir fyrrverandi liðsmönnum SS-sveita Adolfs Hitlers. 

Dey fullyrðir að hafa ekki tekið sjálfviljugur þátt í aðgerðum nasista í útrýmingarbúðunum, en hann segist þó iðrast gjörða sinna. 

„Þetta sagði hann í yfirheyrslunni. Hann iðrast þess sem hann gerði,“ sagði Stefan Waterkamp, lögmaður Dey. 

„Honum var einnig ljóst að fangarnir voru ekki þarna vegna þess að þeir voru glæpamenn, heldur vegna gyðingahaturs, kynþáttahaturs og annarra ástæða. Hann hafði samúð með þeim. En hann áleit sig ekki vera í stöðu til að frelsa neinn,“ sagði Waterkamp. 

Segir Dey ekki hafa viljað starfa í Stutthof

Dey, sem er bundinn við hjólastól, bar hatt á höfði, var með sólgleraugu og skýldi andlit sitt með rauðri möppu þegar hann mætti í réttarsalinn. 

Waterkamp sagði skjólstæðing sinn vera „reiðubúinn til að svara öllum spurningum,“ og bætti við að Dey hafi ekki „gengið til liðs við SS af fúsum og frjálsum vilja. Hann sóttist ekki eftir því að starfa í útrýmingarbúðunum.“

Stutthof-útrýmingarbúðirnar.
Stutthof-útrýmingarbúðirnar. AFP

Saksóknarar sögðu Dey „hafa sem SS vörður í Stutthof-útrýmingarbúðunum frá ágúst 1944 til apríl 1945 trúlega hafa veitt aðstoð við hryllileg morð á gyðingum í fangabúðunum“. 

Mikill þrýstingur var á að réttarhöldin yfir Dey færu fram þrátt fyrir háan aldur hans og lélega heilsu. Öfgahægriskoðanir og gyðingahatur hafa færst nokkuð í aukarnar að undanförnu, en tveir létust í árás á samkunduhús gyðinga í þýska bænum Halle í síðustu viku. 

„Af hverju fara réttarhöldin fram í dag? Munið hvað gerðist í Halle í síðustu viku,“ sagði Efraim Zuroff, talsmaður Simon Wiesenthal samtakana. 

„Hár aldur ætti ekki að vera ástæða til að dæma ekki […]. Hann var hluti af stærsta harmleik sögunnar, það var vilji hans,“ bætti Zuroff við. 

Gerðist bakari eftir stríðslok 

Á meðan Dey starfaði í fangabúðunum gáfu nasistar fyrirmæli um „lokalausnina við gyðingavandamálinu“ sem leiddi til kerfisbundinnar útrýmingar á föngum í gasklefum. 

Þrátt fyrir háa elli er réttað yfir Dey fyrir unglingadómstóli þar sem hann var 17 ára þegar hann starfaði í Stutthof. 

Eftir því sem fram kemur á AFP gerðist Dey, sem er búsettur í Hamborg, bakari eftir stríðslok. Þá starfaði hann einnig sem vörubílstjóri og við viðhaldsvinnu til að auka tekjurnar. Dey á tvær dætur með eiginkonu sinni. 

Bruno Dey.
Bruno Dey. AFP

Við yfirheyrslur sagðist Dey hafa verið sendur til Stutthof vegna hjartagalla sem kom í veg fyrir að hann yrði sendur í fremstu víglínu. 

Dey viðurkenndi einnig að hafa haft vitneskju um gasklefana í búðunum og að hafa séð fangaverði ýta föngum þangað inn. 

Árið 2011 féll fordæmisgefandi dómur yfir fyrrverandi SS-liða, John Demjanjuk, sem var sakfelldur fyrir hlutdeilt sína í morðum á föngum í Sobibor-útrýmingarbúðunum í Póllandi. 

Í kjölfar dómsins yfir Demjanjuk hafa þýskir dómstólar réttað yfir Oskar Groening, sem var bókari í Auschwitz og Reinhold Hanning, sem var fangavörður í Auschwitz. Báðir voru þeir sakfelldir fyrir aðkomu sína að fjöldamorðum í útrýmingarbúðunum, 94 ára að aldri. Þeir létust báðir áður en þeir voru fangelsaðir. mbl.is

Bloggað um fréttina