Steinsmugufaraldur í Ósló

Ostrur gerðu mörgum Óslóarbúanum brátt í brók um helgina eftir …
Ostrur gerðu mörgum Óslóarbúanum brátt í brók um helgina eftir að sending, sýkt nóróveirum, rataði á að minnsta kosti fjóra veitingastaði í höfuðborginni. Atburðurinn varð einu fórnarlambanna tilefni til kveðskapar. Ljósmynd/Shutterstock

„Getur þetta verið? Ég er 43 ára gamall og í fyrsta skipti á ævinni sem ég smakka ostrur kostaði það magakveisu.“ Með þessum orðum rifjar André Nerheim, upplýsingafulltrúi norska stéttarfélagsins Fellesforbundet, síðastliðið föstudagskvöld og helgina á eftir upp í samtali við norska dagblaðið Aftenposten. Nerheim lét ekki þar við sitja heldur orti um reynslu sína.

Upplýsingafulltrúinn lifir nú þá óskemmtilegu reynslu að tilheyra hópi Óslóarbúa sem lyftu sér upp og fóru út að borða í höfuðstaðnum um helgina þar sem ostrur úr einni og sömu sendingunni voru bornar fyrir þá á að minnsta kosti fjórum veitingahúsum sem vitað er um enn sem komið er. Þessu annálaða lagmeti fylgdi nefnilega óvæntur eftirréttur í sömu skál, nóróveirusýking sem olli því að hinir sýktu hafa átt sólarlitla daga síðan.

„Það var ekki fyrr en á laugardaginn að ég fann að eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Þegar konan lagði svo af stað í ferð til Bandaríkjanna á sunnudagsmorguninn skall sjúkdómurinn á mér. Frábær tímasetning,“ segir Nerheim enn fremur af örlögum sínum.

Erfitt að kanna virkni veirunnar vegna kulda sjávar

Brátt kom á daginn að upplýsingafulltrúinn og fjöldi annarra veitingahúsagesta í Ósló um nýliðna helgi höfðu fengið sýkinguna úr ostrum frá framleiðandanum Norwegian Shores. Kristian Lier, framkvæmdastjóri þar, staðfestir þetta við norska fjölmiðla í kvöld og segir að sýktu ostrurnar hafi aðeins fundist í einni og sömu sendingunni, um 1.300 ostrum sem skiptust milli nokkurra vertshúsa höfuðstaðarins.

„Við erum að taka sýni núna,“ segir Lier við Aftenposten, „ég er búinn að borða töluvert af ostrum úr þessari sendingu án þess að veikjast,“ segir hann enn fremur og bætir því við að í einhverjum sýnanna hafi nóróveirur fundist. Lier telur þó að sýkingin komi upphaflega frá okkur mannfólkinu þegar fórnarlömb nóróveirunnar skili uppköstum sínum og þúfnalúru í klósettið. Þetta berist svo til hafs þar sem ostrurnar mæti því.

Í þessu tilfelli voru ostrurnar fengnar við Tjøme í Vestfold, suðvestur af Ósló, og segir Lier framleiðendurna eða birgjana ekki þekkja neinar áreiðanlegar leiðir til að kanna hvort veiran sé virk í dýrunum vegna kulda sjávarins. „Ef við ætluðum okkur að vera 100 prósent viss yrðum við að gera ostrur að árstíðavöru sem aðeins væri seld á sumrin,“ útskýrir framkvæmdastjórinn.

Ostruskáldið góða. André Nerheim, upplýsingafulltrúi Fellesforbundet, lét ekki lækjarkötuna aftra …
Ostruskáldið góða. André Nerheim, upplýsingafulltrúi Fellesforbundet, lét ekki lækjarkötuna aftra sér frá því að kasta fram meitlaðri lausavísu um fyrstu reynslu sína af ostrum og helgina sem fylgdi. Ljósmynd/Frifagbevegelse.no

Norska matvælaeftirlitinu hefur verið tilkynnt um málið en neitar að gefa fjölmiðlum upp hvaða veitingastaðir hafi orðið fyrir barðinu á sýkingunni. Aftenposten hefur þó upplýsingar um að veitingastaðurinn, sem Nerheim upplýsingafulltrúi heimsótti, hafi haft samband við alla gesti sem áttu pantað borð um helgina og greint þar frá málinu.

Búkhlaup Nerheim varð honum hins vegar skáldamjöður og birtir hann frumsamið ljóð á Facebook-síðu sinni sem ef til vill má túlka sem eins konar uppgjör við nóróveiru, útsótt og fyrsta koss ostrunnar. Lausleg íslensk þýðing hér, frumtexti neðan við.

Frumraunin

Ostrurnar áttu fyrsta rétt.

Ein við tvö.

Ég bergði á víni. Fannst tilveran býsna fín.

Eitt sinn verður allt fyrst.

Fyrst kom kveisan

svo kom bréfið.

Debuten

Første rett var østers.

Bare oss to.

Jeg drakk vin. Og tenkte at dette gikk fint.

En gang må man jo debutere.

Først kom sykdommen

så kom brevet.

(André Nerheim)

VG

Dagbladet

ABC Nyheter

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert