Nauðguðu rænulítilli konu

Mennirnir flúðu land eftir að þeir frömdu glæpinn.
Mennirnir flúðu land eftir að þeir frömdu glæpinn. AFP

Tveir ítalskir karlmenn hafa verið dæmdir í sjö og hálfs árs fangelsi en þeir nauðguðu konu í London í febrúar fyrir tveimur árum og tóku glæpinn upp.

Fernando Orlando og Lorenzo Costanzo, báðir á þrítugsaldri, nauðguðu konu á skemmtistað í Soho-hverfinu í London en samkvæmt erlendum miðlum var árásin einkar ógeðfelld.

Mennirnir sögðu athæfið hafa verið með samþykki allra en á myndskeiðinu má sjá hvar þeir gefa hvor öðrum fimmu eftir að hafa framið glæpinn.

Í breskum miðlum kemur fram að mennirnir hafi hitt konuna, sem er 23 ára gömul, á skemmtistað eftir miðnætti. Hún hafi augljóslega verið drukkinn og þeir hafi báðir reynt að kyssa hana.

Átta mínútum eftir að mennirnir hittu konuna studdu þeir hana inn í geymslu á staðnum þar sem þeir nauðguðu henni. Fimmtán mínútur síðar komu þeir út, komu konunni fyrir á kvennaklósetti á staðnum og skildu hana eftir þar.

Aðrir gestir á staðnum komu auga á konuna klukkustund síðar en hún þurfti að gangast undir aðgerð á spítala eftir árásina. 

Mennirnir flúðu land en voru handteknir eftir að annar þeirra kom til London í október í fyrra til að horfa á knattspyrnleik. 

Fram kom í yfirlýsingu fórnarlambsins við réttarhöldin að hún lifi í stöðugum ótta eftir nauðgunina og trúi því ekki að manneskja, hvað þá tvær manneskjur, geti gert það sem mennirnir gerðu henni.

mbl.is