Stærsti skjálfti ársins í álfunni

Fjölmargir flúðu út á götur höfuðborgarinnar eftir að jarðskjálftinn reið …
Fjölmargir flúðu út á götur höfuðborgarinnar eftir að jarðskjálftinn reið yfir í nótt. AFP

Kröftugur jarðskjálfti reið yfir Albaníu í nótt og er skjálftinn, sem mældist 6,4 stig, sá stærsti í Evrópu það sem af er ári.

Mikil skelfing greip um sig í höfuðborginniTirana og í hafnarborginni Durres en þar hrundi hús til grunna, samkvæmt upplýsingum frá varnarmálaráðuneytinu. Flúðu margir íbúar borganna út á götu. Talsmaður varnarmálaráðuneytisins, Albana Qajahai, segir að skemmdirnar séu umtalsverðar en í Durres hrundi hótel á þremur hæðum til grunna og önnur bygging í miðborginni er mjög illa farin.

AFP

Upptök skjálftans voru 34 km norðvestur af Tirana snemma í morgun samkvæmt upplýsingum frá Jarðskjálftamiðstöð Evrópu (European-Mediterranean Seismological Centre).

Tilkynnt hefur verið um skemmdir á mannvirkjum í bænum Thumana sem er í 30 km fjarlægð fráTirana. Um 50 manns hafa leitað læknisaðstoðar í Tirana en meiðslin eru í öllum tilvikum lítils háttar.

Uppfært klukkan 6:58

Vitað er að fjórir létust og 150 slösuðust í skjálftanum. Þar á meðal lést maður sem stökk út af svölum húss í skjálftanum. Vitað er að fólk er undir rústum bygginga í Durres. 

AFP

Jarðskjálftinn fannst víða á Balkanskaganum, allt frá Sarajevo til Bosníu og jafnvel í borginni Novi Sad í Serbíu sem er í 700 km fjarlægð frá upptökum skjálftans. Nokkrir eftirskjálftar hafa fylgt í kjölfar þess stóra en sá stærsti þeirra er 5,3 stig. 

Í september reið yfir jarðskjálfti á sömu slóðum sem mældist 5,6 stig og sögðu yfirvöld þá að það væri stærsti skjálftinn þar í 20-30 ár. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert