Yngsti forsætisráðherra Finnlands

Sanna Marin verður næsti forsætisráðherra Finnlands.
Sanna Marin verður næsti forsætisráðherra Finnlands. Ljósmynd/Wikipedia.org

Finnar fá nýjan forsætisráðherra í næstu viku og þann yngsta í sögu landsins. Sanna Marin var í dag valin af Jafnaðarmannaflokki Finnlands til þess að taka við embættinu í kjölfar þess að Antti Rinne sagði af sér á dögunum.

Fram kemur í frétt Reuters að Marin hafi sagt við fjölmiðla, eftir að hafa unnið nauman sigur á Antti Lindtman, þingflokksformanni Jafnaðarmannaflokksins, að mikil vinna væri framundan við það að endurvinna traust.

Marin er 34 ára gömul og hefur gegnt embætti samgönguráðherra í fimm flokka ríkisstjórn Finnlands sem jafnaðarmenn hafa farið fyrir. Rinne sagði af sér í kjölfar þess að Miðflokkurinn, einn ríkisstjórnarflokkanna, lýsti yfir vantrausti á hann.

mbl.is