Varar við samsæriskenningum

For­seti Úkraínu, Volodimír Zelenskí, varar við samsæriskenningum um flugslysið þar sem úkraínsk farþegaþota fórst með yfir 170 manns um borð skammt frá flugvellinum í Teheran. 

Hann segist hafa beðið alla um að koma ekki með getgátur um orsök slyssins og setja fram órökstuddar kenningar. Zelenskí var staddur í leyfi í Óman en þegar fréttir bárust af slysinu í nótt hélt hann strax heim á leið til Úkraínu. 

Um er að ræða Boeing-737 farþegaþotu í eigu Ukraine International Airline og bárust fregnir af brotlendingunni skömmu eftir sex í morgun að staðartíma, klukkan 2:30 að íslenskum tíma í nótt. Þotan var að fara frá Imam Khomeini-flugvellinum í Teheran á leið til Kænugarðs, höfuðborgar Úkraínu. Rannsókn er hafin á slysinu en ekki er vitað hvort það tengist deilum Írana og Bandaríkjamanna.

Alls voru 168 farþegar og níu manna áhöfn um borð í farþegaþotunni að sögn forsætisráðherra Úkraínu, Oleksij Honcharuk. Samkvæmt upplýsingum frá Rauða krossinum létust allir sem voru um borð. 

Press TV, fréttastofa í eigu ríkisins, var með frétt um það í nótt að vélin hafi brotlent í nágrenni borgarinnar Parand í Teheran-héraði. Talsmaður Imam Khomeini-flugvallarins, Ali Khashani, segir að allt bendi til þess að slysið megi rekja til tæknilegs vanda. Vélin hafi orðið alelda eftir að hún brotlenti en svo sýna myndir af þotunni að hún er alelda þegar hún fellur til jarðar.

Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing segir á Twitter að fylgst sé grannt með fréttum frá Íran og unnið sé að því að safna frekari upplýsingum um slysið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert