Ævareiðar vegna hegðunar Andrésar

Andrés prins 19. janúar síðastliðinn.
Andrés prins 19. janúar síðastliðinn. AFP

Lögmaður kvenna sem segjast hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu Jeffrey Epstein hafa hvatt Andrés prins til að vera samvinnuþýðan í rannsókninni á máli barnaníðingsins.

Lisa Bloom sagði konurnar vera „ævareiðar“ yfir því að hertoginn af York hafi ekkert aðstoðað bandarísk yfirvöld við rannsóknina.

Saksóknarinn í málinu, Geoffrey Berman, greindi frá því í gær að Andrés hefði nákvæmlega ekkert lagt af mörkum til rannsóknarinnar.

Í nóvember sagðist hann vera tilbúinn til að aðstoða yfirvöld við rannsóknina á Epstein, sem framdi sjálfsvíg í fangaklefa sínum í ágúst í fyrra, 66 ára gamall. Þar beið hann réttarhalda þar sem hann var m.a. sakaður um mansal.

Hópur sem kallar sig „Hot Mess
Hópur sem kallar sig „Hot Mess" heldur á skiltum með mynd af Jeffrey Epstein í júlí í fyrra fyrir framan dómshúsið í New York-borg. AFP

„Ætti að gera hið rétta í stöðunni“

Bloom, sem fer með mál fimm kvenna sem hafa sakað Epstein um kynferðislegt ofbeldi, sagði við BBC að hertoginn af York ætti að „gera hið rétta í stöðunni“.

„Ég er ánægð að Geoffrey Berman hefur greint frá þessu opinberlega til að reyna að gera prinsinn vandræðalegan en hann sendi frá sér eina yfirlýsingu en fór svo að gera eitthvað allt annað á bak við luktar dyr,“ sagði hún.

„Þessi fimm fórnarlömb Epstein sem ég er að hjálpa eru ævareið yfir þessu og vonsvikin yfir hegðun Andrésar Prins.“

Að sögn Buckingham-hallar eru lögfræðingar prinsins að vinna í málinu.

„Ef Andrés prins hefur sannarlega ekkert gert rangt af sér þá er nauðsynlegt fyrir hann að tala við FBI [bandarísku alríkislögregluna] þegar hann getur og segja frá því sem hann veit,“ sagði Bloom. „Kannski getur hann orðið til þess að öðrum verður komið á bak við lás og slá.“

Buckingham-höll í London.
Buckingham-höll í London. AFP

Sendi bréf heim til Andrésar

Gloria Allred, annar bandarískur lögmaður sem fer með mál meintra fórnarlamba Epstein, sagðist hafa sent bréf heim til Andrésar þar sem hún hvatti hann til að vera samvinnuþýðan en hefur ekki fengið svar.

„Ekkert svar þýðir ekkert samstarf. Þetta er fáránlegt. Þetta er einfaldlega óásættanlegt.“

Hún bætti við: „Andrési prinsi ber siðferðisleg skylda til að stíga fram og tala við lögregluna – hann sagðist ætla að gera það."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert