„Sér eftir“ barnaníðsferðum til Asíu

Gabriel Matzneff er flúinn til Ítalíu.
Gabriel Matzneff er flúinn til Ítalíu. AFP

Franski rithöfundurinn Gabriel Matzneff segist sjá eftir ferðalögum til Asíu sem voru í þeim tilgangi að níðast á börnum. Í viðtali við franska sjónvarpsstöð á Ítalíu í dag segir hann að á þeim tíma hafi enginn talið að það væri eitthvað glæpsamlegt við að stunda kynlíf með börnum.

Matzneff, sem er 83 ára gamall, er til rannsóknar hjá frönsku lögreglunni eftir að Vanessa Springora, sem er þekktur ritstjóri í Frakklandi, gaf út bók nýverið þar sem hún lýsti því hvernig Matzneff hafi beitt hana kynferðisofbeldi þegar hún var 14 ára gömul.

Bók hennar, Le Consentement, kom út í lok árs og er mest selda bók Frakklands um þessar mundir. 

„Ferðamaður á ekki að hegða sér svona,“ segir Matzneff í viðtali við BFMTV í dag en viðtalið er tekið á Ítalíu — þangað sem hann flúði fárviðrið sem fylgdi útgáfu bókarinnar. Bókaútgefendur hafa tekið bækur hans úr hillum bókaverslana og gagnrýnir Matzneff það harðlega. Segir hann þetta vera nýja bylgju hreintrúarstefnu. 

AFP

„Mér finnst það heimskulegt, yfirgengilegt, að árið 2020 standi ég frammi fyrir armæðu vegna bóka sem ég skrifaði fyrir meira en 40 árum,“ sagði Matzneff í viðtali nýverið en í viðtalinu í dag var hann fullur iðrunar. Sagði að fullorðið fólk ætti að standast freistingar. Ef hann hafi gert eitthvað sem ekki væri gott og rétt að gera þá sjái hann eftir því. 

„Þú ert þarna sem ferðamaður og ungir drengir og stúlkur eru að reyna að krækja í þig úti á götu og stökkva á þig undir eftirliti velviljaðra lögreglumanna,“ segir hann. Á þessum tíma, segir hann að umræðan hafi verið öðruvísi og enginn hafi talað um saknæmt athæfi.

Matzneff hefur aldrei farið leynt með kynferðislanganir sínar í garð unglinga, bæði stráka og stelpna. Það hefur hingað til ekki komið í veg fyrir að hann hafi hlotið fjölmörg verðlaun fyrir bækur sínar og verið heiðraður af frönskum yfirvöldum fyrir störf sín. Hann er á heiðurslaunum frá franska ríkinu og nýtur sérkjara hvað varðar íbúð á besta stað í París. Málið þykir sýna svart á hvítu þann tvískinnung sem hefur ríkt í franskri menningu þegar kemur að kynferðisofbeldi gagnvart börnum. 

Bók Vanessu Springora er mest selda bókin í Frakklandi þessa …
Bók Vanessu Springora er mest selda bókin í Frakklandi þessa dagana. AFP

Í bókinni Les Moins de Seize Ans, sem kom fyrst út árið 1974 og var endurútgefnin árið 2005, talar Matzneff hreinskilningslega um þráhyggju sína hvað varðar kynlíf með börnum og kynlífsferðaiðnaðinn. 

En við útgáfu bókar Springora — Le Consentement eða Samþykki— hefur viðhorfið í hans garð breyst. Í bókinni lýsir hún því hvernig hann hafi beðið eftir henni fyrir utan skólann og farið með hana á hótel þar sem þau höfðu kynmök. Hann á fimmtugsaldri en hún 14 ára gömul.

Matzneff neitar því að eitthvað sé athugavert við þetta samband og segir að ást þeirra hafi verið einstök. Hann er afar ósáttur við það hvernig málin hafa þróast og ekki síst að eiga á hættu að vera tekinn af heiðurslaunalista franska ríkisins. Á nokkrum vikum hafi hann mætt miklu andstreymi og útskúfun félagslega. „Nú neglir ríkið sína nagla svo ég drepi mig. Það er ætlunin.“ „Þetta er eins og í Sovétríkjunum,“ segir Matzneff að lokum en foreldrar hans voru flóttamenn frá Hvíta-Rússlandi. 

mbl.is