Tveir særðir í hnífaárás í Moskvu

Frá rússneskri rétttrúnaðarkirkju í Moskvu. Mynd úr safni.
Frá rússneskri rétttrúnaðarkirkju í Moskvu. Mynd úr safni. AFP

Tveir eru særðir eftir að karlmaður vopnaður hníf réðst inn í kirkju í Moskvu, höfuðborg Rússlands, í dag. Lögregla í borginni segir að málið sé ekki rannsakað sem hryðjuverk.

Maðurinn kom hlaupandi upp að altari kirkjunnar meðan á messu stóð og stakk tvo aðstoðarmenn prestsins, að því er vefsíðan Moscow Patriarchate hefur eftir Kirill Sladkov sóknarpresti. „Hann leit út eins og hvert annað sóknarbarn og öskraði ekkert meðan á árásinni stóð,“ segir Sladkov.

Árásarmaðurinn er 26 ára karlmaður frá Lipetsk-héraði sunnan Moskvu, en hann var yfirbugaður af sóknarbörnum sem héldu honum þar til lögregla kom á vettvang. Irina Volk, talsmaður innnanríkisráðuneytisins, segir að lögregla hafi hafið rannsókn á „óeirðum og ofbeldi“ og bætir við að lögregla hafi fundið pakka með „plöntuefni“ í fórum mannsins, auk hnífs og hanska.

Nokkrar hnífaárásir hafa átt sér stað í Moskvu síðastliðin ár og hefur Ríki íslams lýst einhverjum þeirra á hendur sér. Rússnesk stjórnvöld hafa þó ekki viljað lýsa neinum þeirra sem hryðjuverkaárásum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert