Rannsókn á morðinu á Palme á lokametrunum

Olof Palme var myrtur 28. febrúar árið 1986.
Olof Palme var myrtur 28. febrúar árið 1986.

Krister Petersson sem stýrir rannsókninni á morðinu á Olof Palme, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, segir rannsókn málsins vera á lokametrunum. Henni komi til með að ljúka annaðhvort með ákæru eða þá að málinu verði lokað. Hann segist vera nær því að leysa málið nú heldur en lögreglan var fyrir 34 árum, þegar morðið var framið. Þetta kom fram í þættinum Veckans brott (Glæpir vikunnar) í sænska ríkissjónvarpinu í kvöld.

Petersson tók við rannsókn málsins árið 2017 og segist alveg frá upphafi hafa verið bjartsýnn á að ná að leysa það. Hann segist vissulega hafa eytt meiri tíma í rannsóknina en hann gerði ráð fyrir, en það hafi allt verið góð vinna sem muni leiða af sér góðar niðurstöður. Hann segir niðurstöðu að vænta innan fimm mánaða. Spurður hvort það væri líklegt að ákært yrði í málinu sagðist hann ekki vilja segja til um það, en menn gætu túlkað það að vild.

Olof Palme var skotinn til bana þegar hann var á leið heim út kvikmyndahúsi ásamt konu sinni í miðborg Stokkhólms þann 28. febrúar árið 1986. Christer Petterson var dæmdur fyrir morðið á forsætisráðherranum á sínum tíma en var svo sýknaður á æðra dómstigi.

mbl.is