„Þetta er reiðarslag“

Hnípin þjóð í vanda. Erna Solberg og Bent Høie færa …
Hnípin þjóð í vanda. Erna Solberg og Bent Høie færa Norðmönnum þau tíðindi síðdegis í dag að allar þær lokanir, sem norsk stjórnvöld fyrirskipuðu 12. mars, þá til tveggja vikna, yrðu áfram í gildi fram yfir páska. Rekstraraðilar ferðaþjónustu, einkum skíðastaða, telja greininni greitt náðarhögg. Ljósmynd/Norska félagsmálaráðuneytið/Jan Richard Kjelstrup

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, og Bent Høie heilbrigðisráðherra boðuðu til blaðamannafundar í dag og gerðu þar heyrum kunnugt að þær lokanir sem tóku gildi 12. mars, þá til tveggja vikna, hefðu nú verið framlengdar fram yfir páska, til og með öðrum páskadegi, 13. apríl. Eins og mbl.is greindi frá fyrir tæpum hálfum mánuði fyrirskipaði norska ríkisstjórnin lokun veitingastaða, annarra en þeirra sem framreiða mat, líkamsræktarstöðva, allra tegunda snyrtistofa, allra skóla og fleiri staða auk þess sem heilbrigðisstarfsfólki var bannað að yfirgefa Noreg til og með 30. apríl.

Síðan þessi boð voru látin út ganga hefur borgarráð Óslóar tekið þá ákvörðun að loka enn fleiri veitingastöðum, öllum sem bera fram áfenga drykki, auk þess sem heilbrigðisráðherra bannaði í síðustu viku allar sumarbústaðaferðir milli sveitarfélaga landsins.

Ljóst er nú að einnig þetta síðara bann Bent Høie mun ná fram yfir páska sem er vægast sagt bylmingshögg fyrir rekstraraðila og starfsfólk ferðaþjónustufyrirtækja, svo sem vinsælla vetrarhótela í Hemsedal í Viken sem reiða sig alfarið á páskana sem helstu tekjulind vetrarins, en þangað streyma Norðmenn almennt í þúsundatali hverja páska, þarf af stór hluti til að dvelja í bústöðum í annálaðri skíðaparadís.

Allt að 23.000 smitaðir

Lýðheilsustofnun Noregs sendi í dag frá sér það mat að fjöldi þeirra, sem smitast hefðu af kórónuveirunni í landinu, væri allt frá 7.120 til 23.140. Norsk heilbrigðisyfirvöld veiruprófa nú ekki aðra en þá sem heyra til áhættuhópa, þar á meðal eldra fólk og heilbrigðisstarfsfólk.

„Þetta er hrein skelfing fyrir ferðaþjónustuna í Hemsedal,“ segir Marte Torset, framkvæmdastjóri Skogstad-hótelsins þar í dalnum, í samtali við norska dagblaðið VG í dag. „Síðustu sex vikur hvers vetrar skapa þær tekjur sem fleyta fyrirtækjunum hér áfram fram til næsta vetrar,“ segir Torset. „Nú er um seinan að bjarga þessu ári, það er bara farið.“

Gudrun Sanaker Lohne, framkvæmdastjóri Destinasjon Trysil í Trysil í Innlandet, skammt frá Ósló, sá ekki mikið meira ljós við gangaendann en starfssystirin í Hemsedal:

„Á því leikur enginn vafi að þetta er reiðarslag. Meira en helmingur okkar verðmætasköpunar hér í Trysil byggist á ferðaþjónustu. Átta af hverjum tíu gestum okkar eru erlendir ferðamenn,“ segir Lohne við VG.

Hjálp tafarlaust

Trysil er fámennt sveitarfélag. Fyrsta mars voru þar 2.068 manns á vinnumarkaði. Í dag höfðu 1.411 af því vinnuafli verið send heim eða starfshlutfall þeirra minnkað, þetta eru tæplega þrír fjórðu starfandi fólks í Trysil.

„Bráðnauðsynlegt er að við fáum hjálp tafarlaust sem bætir okkur tekjutapið. Auk þess ætti virðisaukaskattslækkunin sem nú var að taka gildi að vera afturvirk til 1. janúar. Hún ætti enn fremur að ná til allra fyrirtækja, ekki bara ferðaþjónustunnar,“ segir Lohne um þær alvarlegu búsifjar í sveitarfélaginu sem hún nú horfir upp á.

mbl.is