1. apríl-gabb getur þýtt fangelsisvist

Google ætlar ekki að láta fólk hlaupa fyrsta apríl í …
Google ætlar ekki að láta fólk hlaupa fyrsta apríl í ár. AFP

Þrátt fyrir að 1. apríl sé þekktur sem alþjóðlegur hrekkja- og gabbdagur hafa margar ríkisstjórnir farið þess á leit við fólk að forðast hrekki tengda kórónuveirunni. Í sumum tilvikum á fólk yfir höfði sér fangelsisvist ef ekki er farið að fyrirmælum.

Fjölskyldur, fjölmiðlar, netverjar og fyrirtæki hafa oft nýtt daginn til þess að fá fólk til að hlaupa apríl en ólíklegt er að svo verði í ár þar sem fáir eru þannig stemmdir á tímum þar sem milljarðar jarðarbúa eru í hættu. 

Einhverjir stóðust samt ekki freistinguna, þar á meðal Jaejoong, sem er í þekktri hljómsveit í Suður-Kóreu, JYJ. Hann setti inn færslu á Instagram um að hann hefði greinst smitaður af kórónuveirunni og væri á sjúkrahúsi. Fjölmargir aðdáendur Jaejoongs sendu honum batakveðjur en um klukkustund síðar uppfærði hann færsluna og sagði að um aprílgabb væri að ræða. 

Margir brugðust ókvæða við og sögðu að þetta væri alls ekki neitt til að grínast með. 

Í Taívan hafa yfirvöld sagt að þeir sem dreifa falsfréttum og lygi eigi yfir höfði sér allt að þriggja ára fangelsisdóm og sekt upp á þrjár milljónir taívandala, sem svarar til 14,2 milljóna króna. Svipaða sögu er að segja frá Taílandi nema þar er þyngsta refsingin fimm ára fangelsi. 

Forsvarsfólk Google, sem er þekkt fyrir hrekki 1. apríl, tilkynnti starfsfólki að í ár yrði gerð undantekning á hefðinni í virðingarskyni við þá sem eru að berjast við kórónuveiruna.

Eins hafa almannatenglafyrirtæki biðlað til fyrirtækja að láta það vera að taka þátt í gerð og dreifingu slíkra hrekkja í ár.

mbl.is

Kórónuveiran

29. maí 2020 kl. 13:30
1
virk
smit
1794
hafa
náð sér
0
liggur á
spítala
10
eru
látnir