Drap tvö og særði fimm

Frá miðbæ Romans-sur-Isère.
Frá miðbæ Romans-sur-Isère. AFP

Franska lögreglan handtók þrjá Súdana í tengslum við hryðjuverkaárás í suðausturhluta Frakklands í gær. Tveir létust í árásinni.

Árásarmaðurinn, Abdallah Ahmed-Osman, er flóttamaður frá Súdan og búsettur í Romans-sur-Isère, bænum þar sem árásin var gerð. Hann var handtekinn án mótspyrnu.

Árásin var gerð um miðjan dag og réðst árásarmaðurinn á fólkið vopnaður hnífi. Er málið rannsakað sem hryðjuverk. Annar Súdani var handtekinn á heimili Ahmed-Osmans skömmu eftir árásina og síðar um kvöldið var sá þriðji handtekinn en hann er hælisleitandi frá Súdan.

Lögreglan að störfum í Romans-sur-Isère í gær.
Lögreglan að störfum í Romans-sur-Isère í gær. AFP

Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu virðist sem Ahmed-Osman hafi verið einn að verki og engin tengsl virðast vera á milli hans og vígasamtaka eins og Ríkis íslams. Þegar hann var handtekinn var hann á hnjánum á gangstéttinni að biðja á arabísku. Ahmed-Osman á að hafa beðið lögreglu að drepa sig þegar hann var handtekinn. 

Að sögn vitna kallaði hann Allah Akbar! (Guð er mik­ill) er hann stakk fórnarlömb sín. Fólkið sem hann stakk fyrst var eigandi tóbaksverslunar og eiginkona hans. Þaðan fór hann til kjötkaupmannsins og náði sér í annan hníf og þaðan í miðbæinn og réðst á fólk fyrir utan bakarí. Fimm særðust og eru tveir þeirra á gjörgæsludeild.

Ahmed-Osman fékk stöðu flóttamanns í Frakklandi árið 2017. Hann hefur aldrei komist í kast við lögin frá því hann kom til landsins. Heima hjá honum fundust handskrifaðir trúarlegir textar þar sem hann kvartar meðal annars yfir trúleysi Frakka. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert