Hótel flóttafólks lokað af vegna COVID-19

Alþjóðlegu flóttamannasamtökin segja að túlkar, sálfræðingar, félagsfræðingar og lögfræðingar aðstoði …
Alþjóðlegu flóttamannasamtökin segja að túlkar, sálfræðingar, félagsfræðingar og lögfræðingar aðstoði íbúa hótelsins eftir því sem þeir best geta í þessum erfiðu aðstæðum. AFP

Grísk yfirvöld hafa ákveðið að loka af hótel sem hýsir 470 hælisleitendur, skammt frá höfuðborginni Aþenu, vegna kórónuveirusmita sem þar eru komin upp.

Samkvæmt flóttamannaráðuneyti Grikklands greindist 28 ára gömul ófrísk kona sem dvelur á hótelinu með kórónuveiruna og var í kjölfarið sett í einangrun á hótelinu. Samkvæmt heimildum fréttastofu AFP hafa hins vegar mun fleiri greinst með kórónuveirusmit innan hótelsins.

Alþjóðlegu flóttamannasamtökin segja að túlkar, sálfræðingar, félagsfræðingar og lögfræðingar aðstoði íbúa hótelsins eftir því sem þeir best geta í þessum erfiðu aðstæðum.

Alls eru um 100 þúsund hælisleitendur strandaglópar í Grikklandi eftir að önnur Evrópulönd lokuðu landamærum sínum 2016. Allir dvalarstaðir hælisleitenda hafa verið í sóttkví síðan kórónuveirufaraldurinn hófst í Evrópu og gera yfirvöld sitt besta til að halda samgangi hælisleitenda og Grikkja í lágmarki. 

Kórónuveirusmit hafa komið upp í tveimur flóttamannabúðum á meginlandi Grikklands, en alls hafa komið upp 2.245 staðfest smit í Grikklandi samkvæmt talningu Johns Hopkins-háskóla, og 116 hafa látist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert