Norðmenn veri heima til 20. ágúst

Erna Solberg kynnir opnunaráætlun Noregs fyrr í mánuðinum. Á fundinum …
Erna Solberg kynnir opnunaráætlun Noregs fyrr í mánuðinum. Á fundinum í dag kynnti hún hins vegar ferðaráð utanríkisráðuneytisins fyrir sumarið sem taka Norðmönnum allan vara á að heimsækja suðrænar sólarstrendur að minnsta kosti fram til 20. ágúst. Tilslakanir innan Norðurlandanna eru boðaðar í júní. AFP

„Var-a sandr né sær né svalar unnir,“ segir í Völuspá um stöðu mála áður en heimurinn var skapaður. Þetta fengu Norðmenn að heyra að yrði einnig þeirra upplifun sumarið 2020 þegar Erna Solberg forsætisráðherra og Ine Eriksen Søreide utanríkisráðherra kynntu ferðareglur sumarsins á blaðamannafundi í dag, eða ferðaráðin eins og það heitir.

Frá utanríkisráðuneytinu berast þau boð til norskrar þjóðar að halda sig innan landsteinanna í sumar. Fram til 20. ágúst biðja stjórnvöld Norðmenn vinsamlegast að fara ekki í frí til útlanda.

„Þær breytingar sem við erum að fjalla um í dag eru háðar sífelldu mati á ástandinu með tilliti til smittölfræði,“ sagði Solberg á fundinum í dag. „Eins og staðan er núna gilda ferðaráð utanríkisráðuneytisins, komubann til landsins og almennar sóttkvíarreglur til 20. ágúst,“ sagði hún enn fremur.

Frístundaferðir milli Norðurlanda frá 15. júní?

Monica Mæland dómsmálaráðherra tók einnig til máls á fundinum og boðaði tilslakanir innan Norðurlandanna frá 1. júní, þó í þrepum. „Við höfum nú til skoðunar að opna fyrir ferðir vegna vinnu milli Norðurlandanna frá 1. júní. Núgildandi reglur um tíu daga sóttkví verða þá leystar af hólmi af mati hvers og eins á því hvort sjúkdómseinkenni finnist,“ sagði ráðherra og bætti því við að 15. júní skyldi niðurstaða liggja fyrir um það hvort venjuleg orlofs- og sumarfrísferðalög milli Norðurlandanna, án sóttkvíar, teljist vogandi. Kringum 20. júlí sé svo stefnt að því að bæta völdum Evrópulöndum utan Norðurlandanna í örugga hópinn.

Allt sé þetta þó meira og minna háð reglum sem önnur lönd hafa sett sér um ferðatakmarkanir og benti Søreide utanríkisráðherra á þá staðreynd, er Mæland hafði lokið máli sínu, að önnur Evrópulönd byrjuðu einnig á því að opna fyrir ferðir milli næstu nágrannalanda áður en lengra væri haldið.

Engar Svíþjóðarferðir

„Það verða engar sumarbústaðaferðir til Svíþjóðar fyrir 15. júní nema með sóttkví í kjölfarið við heimkomu,“ sagði Erna Solberg í þann mund sem opnað var fyrir spurningar blaðamanna og var í kjölfarið innt eftir því hvort Noregur gæti opnað fyrir frjálsa för milli Norðurlandanna fyrir sitt leyti eingöngu, þyrftu ekki öll Norðurlöndin að opna samtímis?

„Stefnan er samnorræn opnun þar sem öll fimm löndin opna á sama tíma, en þetta er eitthvað sem við verðum að skoða nánar er nær dregur 15. júní,“ svaraði ráðherra.

Hún kvað það enn fremur gleðifréttir að nú hefði smitum fækkað svo mjög að afar og ömmur gætu nú lagst í ferðalög um Noreg með barnabörnum sínum eftir langan aðskilnað. „En fólk í áhættuhópum þarf auðvitað að vega það og meta hvort það borgi sig,“ bætti Solberg við að lokum til að slá varnaglann.

NRK

VG

Nettavisen

mbl.is