Fannst látinn í námu

Steinsås-járnnámurnar gömlu eru í Arendal, skammt norðaustur af Kristiansand í …
Steinsås-járnnámurnar gömlu eru í Arendal, skammt norðaustur af Kristiansand í Suður-Noregi. Þar fann lögregla lík upp úr hádegi í dag sem sett hefur verið í samhengi við voveiflegt hvarf Ørjan Solum að kvöldi 25. mars. Google Maps

Lögreglan í Arendal í Agder í Suður-Noregi fann í dag lík af karlmanni á kafi í vatni í gamalli járnnámu, einni af Steinsås-námunum svokölluðu sem lokað var á ofanverðri 17. öld. Hefur lögregla sett fundinn í samhengi við voveiflegt hvarf Ørjan Solum, 25 ára gamals manns, en hann hvarf sporlaust 25. mars og mun síðast hafa sést til hans um kvöldmatarleytið þann dag í Bratthenget, íbúðahverfi í nágrenni við námurnar gömlu.

Lögregla hefur þó enn sem komið er ekki viljað staðfesta við norska fjölmiðla að um Solum sé að ræða en umfangsmikil leit að honum í og við námurnar hefur verið gerð síðustu daga. Járnnámurnar gömlu eru ekki allar tryggilega lokaðar og hafa íbúar í nágrenninu oftsinnis vakið máls á því að námasvæðið sé hættulegt yfirferðar.

Lögregla hefur fram að þessu ekki útilokað að refsivert athæfi hafi átt sér stað í tengslum við hvarf Solum og kom Vanja Bruvoll, lögmaður lögreglunnar í Arendal og Froland, fram í afbrotaumræðuþættinum Åsted Norge á TV2 í apríl og lýsti þar þeirri kenningu lögreglunnar að Solum hefði orðið fyrir níðingsverkum.

Sjúklingur frá barnæsku

Foreldrar Solum, Tone Gundersen Solum og Terje Thomsen Solum, féllust á að ræða við stjórnendur þáttarins en beiddust þess að viðtalið færi fram í skóglendi í Hove skammt frá Arendal þar sem þau óskuðu eftir friðsælu umhverfi fremur en sjónvarpsmyndveri.

Foreldrarnir voru miður sín í viðtalinu og sögðu frá góðum dreng með ríkulega kímnigáfu þrátt fyrir mikil heilsufarsvandamál en Ørjan Solum var haldinn ólæknandi sjúkdómum, hvort tveggja í þörmum og skjaldkirtli, og þurfti því að nota sterk verkjalyf að staðaldri auk þess að verja miklum tíma á sjúkrahúsum í Arendal og Ósló.

Ørjan Solum, lengst til hægri, með foreldrum sínum, Terje Thomsen …
Ørjan Solum, lengst til hægri, með foreldrum sínum, Terje Thomsen Solum og Tone Gundersen Solum. Lögregla hefur ekki staðfest að líkið sem fannst í dag séu jarðneskar leifar sonarins, en hefur þó tilkynnt foreldrum hans um líkfund í gömlu námunum. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Hann hefur verið veikur síðan hann var barn. Við höfum alltaf verið mjög náin honum, hann hefur verið svo heilsuveill og þarfnast svo mikillar umönnunar,“ sagði móðir hans frá.

Það eina sem vitað er um ferðir Solum 25. mars er að hann ætlaði sér að sækja eitthvað í Bratthenget-hverfinu. Tvö vitni sáu hann um klukkan 18 það kvöld á göngustíg þar í hverfinu sem eru síðustu upplýsingar um ferðir hans.

Hundar, drónar og kafarar

Lögregla leitaði í gær og í dag með miklum viðbúnaði við Steinsås-námurnar og var vélknúin körfulyfta notuð til að komast að stöðum sem ókleift var að auk þess sem lögreglumenn með hunda og dróna leituðu á svæðinu. Þá var slökkvilið kallað til með búnað til að komast ofan í námurnar þangað sem kafarar fóru svo þegar búið var að tryggja námugöngin en hlutar námanna eru fullir af vatni.

Það var í einni þessara náma sem kafarar fundu líkið upp úr klukkan eitt í dag en sem fyrr segir hafa kennsl ekki verið borin á það og vill lögregla því ekki slá neinu föstu um hvort þar sé kominn Ørjan Solum sem saknað hefur verið í tæpa tvo mánuði.

NRK

NRKII

NRKII

VG

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert