94 ára og æfir af ákafa

Mahathir Mohamad fagnar hér sigri í kosningunum árið 2018.
Mahathir Mohamad fagnar hér sigri í kosningunum árið 2018. AFP

Fyrrverandi forsætisráðherra Malasíu, Mahathir Mohamad, sem er 94 ára að aldri og lét af embætti fyrr á árinu, segist hafa þolað við í samkomubanninu vegna kórónuveirunnar með því að æfa af ákafa á stigvél og æfingahjóli.

Eins hafi myndfundir á Zoom hjálpað til en hann viðurkennir að hafa þurft á aðstoð yngri ættingja að halda til að tengjast þar sem hann sé ekki vel að sér í tæknimálum.

Mahathir var forsætisráðherra frá 1981 til 3003 og síðan aftur fyrir tveimur árum er hann var 92 ára gamall.

Hann ræddi við fréttamann AFP í gegnum myndfundabúnað frá skrifstofu sinni í Putrajaya.

Þar kemur fram að Mahathir noti stigvélina annan hvern dag og hjóli hinn daginn. Eins hitti hann fólk sem vill koma og hitta hann svo lengi sem það fylgir reglunum. „Þau verða að vera með grímu, verða að þvo sér um hendurnar og halda ákveðinni fjarlægð frá mér.“

Yfirvöld í Malasíu komu á útgöngubanni um miðjan mars en fá smit hafa greinst í landinu. Alls eru þau um sjö þúsund talsins og um 100 hafa látist af völdum COVID-19. Létt var á hömlum fyrr í maí. 

Mahathir segist hafa nýtt sér Zoom til að vera í sambandi við fólk en viðurkennir að hann skilji ekkert í tæknimálum. „Auðvitað eru börnin mín og barnabörn vel að sér í þessu. Ef ég lendi í vandræðum spyr ég þau.“

Hann varar við afleiðingum þess lendi tæknin í röngum höndum. „Hnífur er vopn. Þú getur notað hníf til skera út fallega hluti en þú getur einnig notað hnífinn til að myrða fólk,“ segir Mahathir.

Spurður út í hvað hægt sé að læra af farsóttinni segir Mahathir að heimurinn þurfi að vera betur undirbúinn fyrir veirur. „Við verðum að læra að takast á við þetta. Ekki aðeins með því að framleiða bóluefni heldur aðgerðir sem við þurfum að gera eins og núna, til að mynda útgöngubann og lokun.“ Hann bætir við að ástandið verði svona í langan tíma og jafnvel þó að bóluefni finnist taki það að minnsta kosti hálft ár að prófa það. Jafnvel þegar það verður tilbúið tekur langan tíma að framleiða nægjanlegt magn fyrir alla þá sem þurfa á því að halda,“ segir Mahathir en hann er menntaður læknir og starfaði sem slíkur áður en hann fór í stjórnmálin. 

Að sögn Mahathir ættu ríki að hætta að eyða billjónum Bandaríkjadala (milljón milljónum) í vopnaframleiðslu. „Ef billjónum dala yrði eytt í rannsóknir og lyf byggjum við í mun öruggari heimi,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert