Óttast nýja bylgju faraldurs í Peking

Tvær konur í hlífðarfatnaði ganga að Xinfadi-markaði.
Tvær konur í hlífðarfatnaði ganga að Xinfadi-markaði. AFP

Útgöngubann hefur tekið gildi í mörgum hverfum höfuðborgarinnar Peking í Kína vegna mikillar útbreiðslu hópsýkingar kórónuveirunnar sem talin er eiga upptök sín á kjötmarkaði í borginni. Eru þetta fyrstu smitin í Peking í um það bil tvo mánuði.

Hátt í 90 einstaklingar hafa greinst með kórónuveiruna á síðustu dögum og flestir þeirra eru tengdir matarmörkuðum á einhvern hátt. Umfangsmikil skimun er þegar hafin á völdum svæðum í Peking.

Sautján tilfelli hafa nú þegar verið rakin til Xinfadi-kjötmarkaðarins og voru sex þeirra staðfest í nótt. Þrír af þeim sem hafa smitast á markaðnum eru starfsmenn, einn var gestur og tveir vinna á stofnun sem hefur eftirlit með kjöti og matvælum. Þeir heimsóttu markaðinn í síðustu viku.

Kjötmarkaðinum hefur verið lokað sem og níu skólum og leikskólum í grennd við markaðinn. Þá var markaði með sjávarföng einnig gert að loka en einn hinna smituðu hafði farið þangað.

Lögregla og herlögregla er á svæðinu til að tryggja að …
Lögregla og herlögregla er á svæðinu til að tryggja að allir fari eftir fyrirmælum og haldi sig innandyra. AFP

Allir komnir í „stríðsham“

Yfirvöld í Peking óttast nú að önnur bylgja muni hefjast ef ekki næst að hemja útbreiðslu hópsýkingarinnar en svartsýnustu menn óttast að önnur bylgja sé nú þegar hafin.

Íbúum í Fengtai-hverfinu í suðurhluta Peking hefur verið skipað að halda sig heima en hverfið er mjög nálægt kjötmarkaðinum. Tugir ef ekki hundruð lögreglu- og herlögreglumanna eru á svæðinu og passa að fólk fari eftir fyrirmælum.

Umfangsmikil vinna er nú hafin til að kanna hreinlæti í matvælaframleiðslunni á svæðinu. Fulltrúar yfirvalda í Fengtai segja að íbúar og stofnanir á svæðinu séu komnir í „stríðsham“  til að koma í veg fyrir aðra bylgju faraldurs.

Veiran greindist á skurðbrettum sem notuð voru til að skera lax, sem hefur vakið ótta um að hreinlæti matvæla í Peking sé ábótavant. Fjöldi verslana hefur tekið allan lax úr sölu og margir veitingastaðir eru hættir að selja lax í bili.

Mikil vinna fer nú fram á matvælamörkuðum í Peking til …
Mikil vinna fer nú fram á matvælamörkuðum í Peking til að ganga úr skugga um að matvæli séu ekki sýkt. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina