Kastaði barni af 10. hæð – örlög hans ráðast í dag

Lögreglumenn og sjúkraflutningamenn á vettvangi 4. ágúst 2019.
Lögreglumenn og sjúkraflutningamenn á vettvangi 4. ágúst 2019. AFP

Dómstóll í Bretlandi ákveður í dag refsingu breska unglingsins Jonty Bravery, sem kastaði sex ára frönskum dreng fram af tíundu hæð Tate Modern-listasafnsins í ágúst á síðasta ári. Bravery hefur viðurkennt að hafa reynt að myrða drenginn – því honum langaði að komast í sjónvarpið. Drengurinn ungi lifði morðtilraunina af en slasaðist alvarlega.

Atburðurinn átti sér stað um miðjan dag 4. ágúst árið 2019. Veðrið var milt og gott og fjöldi fólks var samankominn á útsýnispalli safnsins á tíundu hæð til að virða fyrir sér útsýnið yfir Lundúnaborg. Skyndilega heyrðist hávær skellur og í kjölfarið heyrðist kona hrópa: „Hvar er sonur minn? Hvar er sonur minn?“.

Fljótlega áttuðu viðstaddir sig á að ekki væri allt með felldu og athygli nokkurra þeirra beindist að Bravery, sem var 17 ára gamall, því hann þótti grunsamlegur. Honum var haldið föstum á meðan lögregla kom á vettvang en athygli vakti að hann var mjög rólegur og gerði enga tilraun til að flýja.

 „Ég held að ég hafi drepið einhvern“

Síðar er Bravery sagður hafa sagt við starfsmann Tate Modern: „Ég held að ég hafi drepið einhvern. Ég kastaði einhverjum af svölunum.“ Hann var handtekinn og yfirheyrður í kjölfarið. Tveimur dögum síðar játaði hann að hafa reynt að myrða drenginn unga. Hann sagðist hafa ákveðið að meiða einhvern á safninu til að komast í sjónvarpið.

Bravery játaði brot sitt í desember en í dag kemur í ljós hvaða refsingu hann fær. Lögmenn Bravery héldu því fram fyrir dómi að hann væri á einhverfurófinu og væri haldinn áráttu- og þráhyggjuröskun. Þá væri hann líklega haldinn einhvers konar persónuleikaröskun. Bravery sjálfur sagðist hafa heyrt raddir sem skipuðu honum að meiða einhvern eða drepa.

Jonty Bravery var myndaður fyrir réttarhöldin.
Jonty Bravery var myndaður fyrir réttarhöldin. AFP

Hlaut mænuskaða og heilablæðingu

Þrátt fyrir að hafa lifað fallið af slasaðist franski drengurinn mjög alvarlega. Hann hryggbrotnaði og mæna hans skaddaðist við það. Auk þess brotnaði hann á höndum og fótum og hlaut heilablæðingu. Hann á erfitt með tal, að ganga og að borða.

Foreldrar hans stofnuðu GoFundMe-síðu fyrir hann og hafa safnað 234 þúsund evrum, sem er jafnvirði um 37 milljónum króna. Drengurinn eyðir mestum tíma sínum í sérhönnuðu sæti sem var komið fyrir í hjólastól. Hann getur setið á gólfinu og leikið sér með dót en einungis í stutta stund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert