Fleiri farsóttir fylgja áframhaldandi eyðileggingu umhverfisins

Ef við höldum áfram að eyðileggja heimkynni villtra dýra mun …
Ef við höldum áfram að eyðileggja heimkynni villtra dýra mun það koma í bakið á okkur í formi fleiri farsótta segja sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna. Talið er að veiran sem veldur Covid-19 hafi smitast í menn úr leðurblökum. AFP

Súnum, sem eru sjúkdómar sem smitast frá dýrum í menn, fer fjölgandi og sú þróun mun halda áfram ef ekki verður gripið til aðgerða til að vernda villt dýralíf og varðveita umhverfið. Þetta segja sérfræðingar á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Sérfræðingarnir kenna mikilli eftirspurn eftir próteini úr dýrum, ósjálfbærum landbúnaði og loftlagsbreytingum um fjölgun nýrra sjúkdóma líkt og Covid-19. Þeir telja að sjúkdómar sem smitast frá mönnum í dýr valdi dauða tveggja milljón manna á ári hverju. BBC greinir frá.

Ebóla, Vestur-Nílar-veiran, og Sars eru dæmi um súnur. Þeir urðu til eða þróuðust í dýrum og bárust þaðan í menn. En samkvæmt nýrri skýrslu starfshóps Sameinuðu þjóðanna gerist það ekki af náttúrulegum ástæðum heldur eru aðrir ytri þættir sem valda þessari þróun.

Þessir þættir séu meðal annars eyðing skóga og gróðurs, truflun á villtu dýralífi og loftlagsbreytingar. Þeir geri það að verkum að samskipti dýra og manna breytast og verða í einhverjum tilvikum meiri. 

Sex farsóttir af völdum nýrrar kórónuveiru

„Á síðustu öld höfum við séð að minnsta kosti sex farsóttir af völdum nýrrar kórónuveiru. Á síðustu tveimur áratugum og fyrir Covid-19, ollu súnur efnahagslegum skaða sem nemur 100 billjónum dala,“ segir Inger Andersen, sem leiðir umhverfisverndarstarf hjá Sameinuðu þjóðunum.

Nefnir hún að kjötframleiðsla hafi aukist um 260% á síðustu 50 árum. Það hafi haft í för með sér aukinn landbúnað og meiri innviði sem byggðir eru á kostnað umhverfisins, þar sem mörg villt dýr lifa.

„Vísindin sýna það ljóslega að ef við höldum áfram að misþyrma villtu dýralífi og eyðileggja vistkerfin okkar, þá megum við búast við því að sjá enn fleiri svona sjúkdóma smitast úr dýrum í menn. Til að koma í veg fyrir fleiri farsóttir verðum við að vera byrja að vernda náttúruna betur,“ bættir Andersen.

mbl.is