„Roger Stone er nú frjáls maður!“

Roger Stone og Donald Trump hafa lengi verið félagar og …
Roger Stone og Donald Trump hafa lengi verið félagar og vinir en Stone var hans helsti ráðgjafi í forsetakosningunum 2016. AFP

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, mildaði refsingu yfir fyrrverandi ráðgjafa sínum og vini, Roger Stone, í gær. „Roger Stone er nú frjáls maður!“ segir í tilkynningu frá forsetaembættinu. Stone átti að hefja afplánun 40 mánaða fangelsisdóms innan nokkurra daga. 

Stone var í nóv­em­ber í fyrra fund­inn sek­ur um að hindra fram­gang rétt­vís­inn­ar og um falsk­ar yf­ir­lýs­ing­ar varðandi vitn­is­b­urð hans fyr­ir Banda­ríkjaþingi vegna tölvu­pósta Demó­krata­flokks­ins sem stolið var árið 2016.

Ákvörðun Trumps varð til þess að enn einu sinni fór af stað umræða um hversu frjálslega forsetinn fer með heimildir sínar þegar kemur að réttarkerfi landsins þegar kemur að aðstoð við vini og bandamenn og refsingum óvina og gagnrýnenda.
Trump hefur harðlega gagnrýnt rannsókn sérstaks saksóknara, Robert Mueller, á birtingu uppljóstrunarvefjarins WikiLeaks á tölvupóstunum. Leyniþjónusta Bandaríkjanna hefur sagt að WikiLeaks hafi fengið tölvupóstana frá rússneskum hökkurum sem hafi stolið þeim. Segir Trump að enginn glæpur hafi verið framinn og að Stone hefði aldrei átt að vera ákærður enda ásakanirnar tilefnislausar. 

Í yfirlýsingu sem lögmaður Stone, Grant Smith, sendi á fjölmiðla í gærkvöldi kemur fram að skjólstæðingur hans er gríðarlega upp með sér að forseti landsins hafi nýtt sér einstakar og um leið frábærar valdheimildir, sem byggi á stjórnarskrá landsins, til þess að milda refsinguna.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ríkisstjórn Bandaríkjanna kemur Stone til aðstoðar því eftir að saksóknari fór fram á að Stone yrði dæmdur í 7-9 ára fangelsi greip Bill Barr dómsmálaráðherra, sem hefur verið sakaður um að hegða sér eins og persónulegur lögfræðingur Trump, og sagði það allt of langur dómur, að því er segir í frétt AFP-fréttastofunnar. 

Stone er sjötti aðstoðarmaður Trump sem er dæmdur fyrir misnotkun valds í tengslum við rannsókn Robert Mueller, sérstaks saksóknara á afskiptum Rússa að bandarísku forsetakosningunum 2016. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert