Ásaka Rússa um afskipti af þingkosningum

AFP

Bresk stjórnvöld hafa borið ásakanir á hendur Rússa að hafa reynt að hafa áhrif á þingkosningar í Bretlandi, sem fram fóru í desember 2019. Þetta segir Dominic Raab, utanríkisráðherra Bretlands. AFP greinir frá.

Síðustu mánuði hafa bresk stjórnvöld rannsakað hvernig hin svokölluðu NHS-skjöl, sem voru mikið til umræðu í kosningarbaráttunni, komust í hendur Verkamannaflokksins. Skjölin innihéldu viðkvæmar upplýsingar um fyrirhugaðan viðskiptasamning Bretlands og Bandaríkjanna, og voru þau sögð innihalda staðfestingu á því breska heilbrigðisþjónustan (NHS) væri „til sölu“.

Í skriflegri tilkynningu Raab segir að rannsóknin hafi leitt í ljós að Rússar hafi reynt að hafa áhrif á niðurstöður kosninganna með því að magna og vekja athygli á skjölunum, sem hafi verið lekið á ólöglegan hátt. 

AFP

Skýrsla um rússnesk afskipti væntanleg

The Guardian greinir frá því að skölunum hafi verið lekið og birt á Reddit, þar sem Twitter-notandi að nafni Gregoriator reyndi að beina athygli blaðamanna að þeim. Að lokum komst þrýstihópur með tengsl við Verkamannaflokkinn yfir skjölin og kom þeim áleiðis til flokksins.

Þá sé þetta í fyrsta skipti sem ráðherra játar að Rússar hafi reynt að hafa áhrif á niðurstöður breskra kosninga. Í síðustu viku tilkynntu bresk stjórnvöld að skýrsla um möguleg afskipti í bresku lýðræði, þá sérstaklega Brexit atkvæðagreiðslunni, yrði birt á næstu dögum. Skýrslan átti að vera birt fyrir þingkosningarnar 2019, en Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, frestaði birtingu hennar í október síðastliðinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert