Pútín biðst afsökunar

Jafningjar. Aleksandar Vucic, forseti Serbíu, situr fyrir framan Donald Trump …
Jafningjar. Aleksandar Vucic, forseti Serbíu, situr fyrir framan Donald Trump kollega sinn. Skjáskot/Facebook

Vladimir Pútín, forseti Rússlands, hefur beðið Aleksandar Vucic, forseta Serbíu, afsökunar á færslu sem háttsettur rússneskur embættismaður setti á Facebook og reitti Vucic til reiði. Þetta kemur fram í umfjöllun BBC um málið.

Maria Zakharova, talsmaður rússneska utanríkisráðuneytisins, hafði deilt mynd af Vucic og Donald Trump Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu og skrifað við hana að það liti út eins og Vucic væri í yfirheyrslu hjá Bandaríkjaforseta á myndinni; skoðun sem fleiri netverjar hafa deilt.

„Ef þér er boðið í Hvíta húsið en stóllinn þinn er eins og þú sért í yfirheyrslu, þá ættirðu bara að sitja eins og á þessari mynd. Treystu mér,“ sagði Zakharova og lét fylgja mynd af fótleggjum leikkonunnar Sharon Stone úr kvikmyndinni Basic Instinct.

Vuvic var í Hvíta húsinu ásamt forsætisráðherra Kósóvó til að undirrita samkomulag sem fól í sér að Kósóvó og Ísrael viðurkenndu hvort annað, og að Serbar flyttu sendiráð sitt í Ísrael til Vestur-Jerúsalem, þótt forseti Serbíu hafi reyndar dregið í land með það síðastnefnda.

Vucic brást ókvæða við færslu Zakharovu, en hún baðst sjálf afsökunar í síðustu viku og hefur Pútín nú gert það sömuleiðis. Afsökunarbeiðnin var ekki opinberuð, en bæði serbneska forsætisráðuneytið og skrifstofa Rússlandsforseta hafa staðfest að Pútín hafi beðist afsökunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert