Pútín biðst afsökunar

Jafningjar. Aleksandar Vucic, forseti Serbíu, situr fyrir framan Donald Trump …
Jafningjar. Aleksandar Vucic, forseti Serbíu, situr fyrir framan Donald Trump kollega sinn. Skjáskot/Facebook

Vladimir Pútín, forseti Rússlands, hefur beðið Aleksandar Vucic, forseta Serbíu, afsökunar á færslu sem háttsettur rússneskur embættismaður setti á Facebook og reitti Vucic til reiði. Þetta kemur fram í umfjöllun BBC um málið.

Maria Zakharova, talsmaður rússneska utanríkisráðuneytisins, hafði deilt mynd af Vucic og Donald Trump Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu og skrifað við hana að það liti út eins og Vucic væri í yfirheyrslu hjá Bandaríkjaforseta á myndinni; skoðun sem fleiri netverjar hafa deilt.

„Ef þér er boðið í Hvíta húsið en stóllinn þinn er eins og þú sért í yfirheyrslu, þá ættirðu bara að sitja eins og á þessari mynd. Treystu mér,“ sagði Zakharova og lét fylgja mynd af fótleggjum leikkonunnar Sharon Stone úr kvikmyndinni Basic Instinct.

Vuvic var í Hvíta húsinu ásamt forsætisráðherra Kósóvó til að undirrita samkomulag sem fól í sér að Kósóvó og Ísrael viðurkenndu hvort annað, og að Serbar flyttu sendiráð sitt í Ísrael til Vestur-Jerúsalem, þótt forseti Serbíu hafi reyndar dregið í land með það síðastnefnda.

Vucic brást ókvæða við færslu Zakharovu, en hún baðst sjálf afsökunar í síðustu viku og hefur Pútín nú gert það sömuleiðis. Afsökunarbeiðnin var ekki opinberuð, en bæði serbneska forsætisráðuneytið og skrifstofa Rússlandsforseta hafa staðfest að Pútín hafi beðist afsökunar.

mbl.is