Greiða fjölskyldunni 1,6 milljarða

Tamika Palmer, móðir Breonna Taylor, sést hér fyrir miðri mynd …
Tamika Palmer, móðir Breonna Taylor, sést hér fyrir miðri mynd að loknum blaðamannafundi sem fór fram í Louisville í dag. AFP

Yfirvöld í Louisville í Kentucky í Bandaríkjunum hafa samþykkt að greiða fjölskyldu Breonnu Taylor, sem lögreglumenn skutu til bana fyrr á þessu ári, 12 milljónir dala í bætur, sem samsvarar 1,6 milljörðum kr. 

Taylor, sem var 26 ára gömul þegar hún lést, var skotin átta sinnum á heimili sínu þann 13. mars. Lögreglumenn, sem fór inn á heimilið, héldu fyrir mistök að fíkniefni væru á heimilinu. Engin fíkniefni fundust hins vegar á vettvangi. 

Nafn Taylor hefur verið haldið á lofti á baráttufundum gegn rasisma sem hafa farið fram undanfarnar vikur og mánuði. 

AFP

Lonita Baker, lögmaður fjölskyldu Taylor, segir að dómssáttin sé aðeins eitt þrep í átt að réttlæti. Baker fagnaði ennfremur þeim breytingum sem hafa verið gerðar á starfsemi og skipulagi lögreglunnar í kjölfar atviksins. Á meðal þess sem hefur verið breytt er að yfirmaður innan lögreglunnar verði ávallt að gefa grænt ljós á allar leitarheimildir. 

„Réttlæti fyrir Breonnu er marglaga,“ sagði Baker á blaðamannafundi í dag sem Greg Fischer, borgarstjóri Louisville, var einnig viðstaddur. 

Baker segir að samkomulagið sé mikilvægt en aðeins eitt skref á langri vegferð. „Í dag gerðum við það sem við gátum til að koma á smávegis umbótum í starfi lögreglunnar, og þetta er aðeins upphafið,“ sagði hún. 

Lögreglumenn fóru að heimili Taylor skömmu eftir miðnætti 13. mars, en þeir höfðu fengið heimild að fara inn á heimilið án þess að láta vita af sér. Taylor og unnusti hennar, Kenneth Walker, voru sofandi þegar lögreglan lét til skarar skríða. Taylor og Walker héldu að um innbrotsþjófa væri að ræða og höfðu samband við neyðarlínuna. Walker, sem var með byssuréttindi, skaut á lögreglumennina sem svöruðu með skothríð, en einn lögreglumaður særðist í átökunum. Walker var handtekinn í kjölfarið en Taylor lét lífið, sem fyrr segir. 

mbl.is