Fær Pulitzer-verðlaun fyrir upptökuna af George Floyd

Darnella Frazier tók myndbandið sem vakti athygli umheimsins á lögregluofbeldi …
Darnella Frazier tók myndbandið sem vakti athygli umheimsins á lögregluofbeldi og varð kveikjan að risavaxinni mótmælaöldu í Bandaríkjunum og víðar. AFP

Unglingsstúlkan Darnella Frazier hlaut í gær sérstök Pulitzer-verðlaun fyrir myndbandsupptöku sem hún tók af handtöku lögreglunnar í Minneapolis á George Floyd. Lést hann við handtökuna og var lögreglumaðurinn Derek Chauvin síðar ákærður og fundinn sekur um morð á Floyd. Vakti málið mikla reiði og óhug í Bandaríkjunum og varð kveikjan að risavaxinni mótmælaöldu í Bandaríkjunum og víðar. Pulitzer-verðlaunin eru virtustu blaðamannaverðlaun heims.

Fram kemur hjá dómnefndinni að Frazier hafi sýnt mikið hugrekki við að taka upp morðið og þannig beint sjónum heimsins að lögregluofbeldi. Varpi það ljósi á mikilvægi borgara í vegferð fjölmiðla að sýna hið sanna og sanngjarna.

Frazier gekk fram á lögreglumennina vera að handtaka Floyd 25. maí í fyrra, en hún sagði fyrir dómi að hún hefði ákveðið að byrja að taka upp myndbandið sem sýndi mann í uppnámi sem reyndi að biðjast fyrir lífi sínu.

Í myndbandinu sést Derek Chauvin, sem er hvít­ur karl­maður, þrýsta hné sínu aft­an á háls Floyd í meira en níu mínútur, sem var hand­járnaður, og tjáði hann Chau­vin oft að hann næði ekki and­an­um. Lög­reglumaður­inn virti að vett­ugi bón Floyds um að vera lát­inn laus þar sem hann næði ekki and­an­um. Floyd hafði verið hand­tek­inn grunaður um að hafa fram­vísað fölsuðum 20 dala seðli. 

Fá mál hafa vakið jafn mikla at­hygli og hörð viðbrögð í Banda­ríkj­un­um ára­tug­um sam­an. Chau­vin var dæmd­ur fyr­ir morð 20. apríl og strax fang­elsaður. Þyngsta mögu­lega refs­ing fyr­ir morð af ann­arri gráðu er 40 ára fang­elsi. Þar sem þetta er fyrsta brot Chau­vin hefði hann und­ir eðli­leg­um kring­um­stæðum átt yfir höfði sér tólf og hálfs árs fang­elsi en vegna þess að dóm­ar­inn tók fram við dóms­upp­kvaðning­una mögu­lega refsi­hækk­un vegna þess hve glæp­ur­inn var grimmi­leg­ur, gæti dóm­ur­inn orðið þyngri.  

mbl.is