„Ég næ ekki andanum“

AFP

Tveir lögreglumenn í Washington-ríki hafa verið ákærðir fyrir morð á svörtum manni sem lést í haldi lögreglu og sá þriðji hefur verið ákærður fyrir manndráp.

Manuel Ellis lést í Tacoma í mars í fyrra og vakti mál hans mikla athygli og markaði upphaf mótmæla svartra í ríkjum við norðvesturströnd Kyrrahafsins. Margt þykir líkt með drápinu á Ellis og drápinu á George Floyd af hálfu lögreglunnar í Minnesota.

Ellis lést eftir ofbeldisfulla árás og/eða ólögmæta fangelsun af hálfu tveggja lögreglumanna á sama tíma og sá þriðji hélt Ellis á grúfu og þrýsti á bak hans þrátt fyrir að hafa heyrt Ellis segja: „Ég næ ekki andanum,“ segir í yfirlýsingu frá ríkissaksóknara í Washington. 

Ríkisstjórinn í Washington, Jay Inslee, fór fram á að andlát Ellis yrði rannsakað að nýju og það yrði gert á vegum ríkisins, ekki lögregluumdæmisins sem fór áður með málið. Rannsóknin hófst síðasta sumar, á sama tíma og allt var á suðupunkti í landinu vegna drápsins á Floyd. Ákvörðun Inslee byggði meðal annars á gögnum úr eftirlitsmyndavélum og framburði vitna sem var algjörlega á skjön við það sem lögreglumennirnir héldu sjálfir fram.

Þá hafði réttarmeinafræðingur sýslunnar úrskurðað að andlát Ellis væri manndráp af völdum súrefnisþurrðar. Súrefnisskortinn mætti rekja til þess hvernig honum hafi verið haldið föstum. Sami réttarmeinafræðingur úrskurðaði síðar að mjög ólíklegt væri að metamfetamínið sem fannst í blóði Ellis hefði nokkuð með dauða hans að gera. 

„Þetta er fyrsta skrefið í réttarkerfi okkar,“ segir í yfirlýsingu frá Inslee í gær. Þar er jafnframt haft eftir honum að ríkið verði áfram að sýna frumkvæði, að kjörnir fulltrúar verði að sýna embættismönnum aðhald og gæta þess að óréttlæti nái ekki fram að ganga. 

Ellis, sem var 33 ára að aldri, hafði skroppið út seint að kvöldi 3. mars 2020 til þess að fá sér að borða. Hann var á heimleið með kleinuhringjapoka þegar hann mætti lögreglubíl. Í bílnum voru lögreglumennirnir Christopher Burbank og Matthew Collins.

Burbank og Collins héldu því síðar fram að Ellis hafi ráðist á þá þegar hann reyndi að opna hurð á öðrum bíl en sínum eigin. En þrjú vitni og myndskeið úr símum þeirra og myndir úr eftirlitsmyndavél eru á öndverðum meiði við þessar fullyrðingar þeirra. Engin gögn né framburður vitna bendir til þess að Ellis hafi verið árásaraðilinn, samkvæmt niðurstöðu rannsóknar Washington-ríkis.

Burbank og Collins, sem beittu rafbyssu á Ellis og tóku hann hálstaki, hafa verið ákærðir fyrir fyr­ir morð af ann­arri gráðu, sem er það sama og lög­reglumaður­inn Derek Chau­vin var ákærður fyrir í máli George Floyd, og þriðji lögreglumaðurinn, sem kom síðar á vettvang og kraup á baki Ellis þar til sjúkraflutningafólk kom á vettvang, er ákærður fyrir manndráp af fyrstu gráðu. 

Ef þeir verða dæmdir er hámarksrefsing fyrir brot þeirra lífstíðarfangelsi. Handtökuskipun hefur verið gefin út á hendur þeim öllum þremur. 

Mótmæli hófust í Tacoma, sem er skammt suður af Seattle, í kjölfar andláts Ellis og í kjölfarið var lögreglu bannað að beita hálstaki við handtökur í ríkinu. Nánast óþekkt er að lögreglan sé ákærð fyrir ólögmætar handtökur í Washington. 

Derek Chauvin, fyrrverandi lögreglumaður í Minnesota, var í apríl dæmdur sekur um morðið á Floyd. Síðan sá dómur féll hafa tveir lögreglumenn verið ákærðir fyrir morð og sá þriðji dæmdur fyrir að hafa skotið mann í sjálfsvígshugleiðingum í Alabama. 

mbl.is