„Aldrei séð neitt þessu líkt“

Lögregla í Bandaríkjunum. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti.
Lögregla í Bandaríkjunum. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti. AFP

Fjöldi lögreglumanna í Akron í Ohio-ríki hefur verið sendur í leyfi í kjölfar þess að Jaylen Walker, 25 ára svartur maður, lést eftir skothríð lögreglu.

Walker var skotinn er hann reyndi að flýja lögreglu fótgangandi eftir að hafa verið stöðvaður fyrir brot á umferðarlögum. Yfirvöld í borginni búa sig undir mótmæli, en myndskeið af atvikinu verður birt í dag. 

Bobby DiCello, Lögfræðingur Walkers, segir að myndskeiðið sýni Walker á hlaupum, óvopnaðan, þegar lögreglumenn hófu að skjóta á hann, yfir 90 sinnum. Að sögn DiCello varð hann fyrir að minnsta kosti 60 skotum. New York Times greinir frá. 

Átta lögreglumenn að verki

„Ég hef verið réttarlögmaður í 22 ár og ég hef aldrei áður séð neitt þessu líkt,“ segir DiCello. Hann segir átta lögreglumenn hafa verið að verki en yfirvöld hafa ekki staðfest þá tölu.

Í fyrstu tilkynningu lögreglu um málið, sem gefin var út á þriðjudag, segir að lögreglumennirnir hafi gert tilraun til þess að stöðva Walker fyrir brot á umferðarlögum. Walker hafi haldið áfram að aka og hleypt af skoti úr byssu að sögn lögreglu.

Nokkrum mínutum síðar hafi Walker hægt á bílnum og farið út, á meðan bíllinn var enn á ferð. Lögregla elti Walker inn á bílastæði þar sem hann var svo skotinn. Í tilkynningunni er tekið fram að verknaður Walkers hafi gefið lögreglu ástæðu til þess að halda að hann væri lífshættulegur.

Mótmæli gegn lögregluofbeldi í garð svartra Bandaríkjamanna hefur verið áberandi.
Mótmæli gegn lögregluofbeldi í garð svartra Bandaríkjamanna hefur verið áberandi. AFP

DiCello segir það rangt og ekkert í myndskeiðinu gefi til kynna að Walker hafi ögrað eða hrætt lögreglumennina á einhvern hátt. Því hafi enginn ástæða verið fyrir því að skjóta hann.

DiCello dregur líka í efa frásögn lögreglu um það að Walker hafi hleypt af skoti þar sem rúðurnar á bílnum hans eru óbrotnar. Í bílnum hans fannst byssa, sem hann var ekki með í fórum sínum er hann flúði lögreglu fótgangandi.

Walker hafði ekki komist áður í kast við lögin og aðeins fengið eina umferðarsekt. Hann vann sem sendill fyrir fyrirtækið DoorDash og var með stóra drauma um það að opna sitt eigið fyrirtæki að söng DiCello.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert