Níutíu milljarðar úr umferð

Gömlu norsku seðlarnir sem fallið hafa úr gildi í áföngum …
Gömlu norsku seðlarnir sem fallið hafa úr gildi í áföngum síðustu ár. Lengst til vinstri er 1.000 króna seðillinn með Edvard Munch sem hægt er að nota til 14. nóvember. Ljósmynd/Seðlabanki Noregs

Hver fer nú að verða síðastur í Noregi lumi hann á hinum virðulega norska 1.000 króna seðli sem skartar mynd af norska listmálaranum Edvard Munch á bakgrunni sem tekinn er úr einu þeirra málverka hans sem gengu undir nafninu Þunglyndi eða Melankoli og listamaðurinn málaði á árunum 1891 – '93.

Nýr 1.000 króna seðill leysti Munch-seðlana, sem settir voru í umferð í júní 2001, af hólmi í nóvember í fyrra og hafa þar með allir gömlu seðlarnir fengið nýtt og ferskt útlit, 50, 100, 200, 500 og 1.000 krónur að verðgildi.

Gömlu 1.000 króna seðlarnir falla úr gildi 14. nóvember og ráðleggur norski seðlabankinn öllum þeim, sem liggja á Edvard Munch, hvort sem er í koddaverinu eða ofan í skúffu, að heimsækja bankaútibú og leggja peningana inn á reikninginn sinn eða nota þá við innkaup.

Nýju 1.000 króna seðlarnir voru settir í umferð 14. nóvember …
Nýju 1.000 króna seðlarnir voru settir í umferð 14. nóvember í fyrra. Allir nýju seðlarnir, 50, 100, 200, 500 og 1.000 krónur, bera myndskreytingar tengdar hafinu, lífæð Norðmanna um aldaraðir, þótt einhverjir hafi viljað skreyta þá með olíuborpöllum með hliðsjón af lífæðinni frá 1970 til dagsins í dag. Ljósmynd/Seðlabanki Noregs

Gamlir þúsundkallar í umferð eru sex milljónir talsins sem gerir sex milljarða norskra króna, jafnvirði 90 milljarða íslenskra króna á gengi dagsins. Af smærri seðlunum, 50 til 500 krónur, eru enn 26 milljónir í umferð, eða um 4,3 milljarðar norskra króna.

Leif Veggum seðlabankastjóri segir að einstaka bankar og verslanir kunni að taka við gömlu seðlunum eftir 14. nóvember, en engum nema norska seðlabankanum sé þó skylt að taka við þeim eftir það.

Nýju seðlarnir sverja sig í ætt við smámyntina sem tók gildi á Íslandi 1. janúar 1981 að því leyti að þeir skarta myndskreytingum úr einum höfuðatvinnuvega þjóðarinnar, sjávarútveginum, þrátt fyrir að gárungar hefðu á orði, þegar orð barst af nýjum seðlum á sínum tíma, að olíuborpallar og -tunnur væru viðeigandi myndefni.

Spyrja um notkun reiðufjár

Í kórónuveirufaraldrinum hafa neytendur verið hvattir til að nota reiðufé sem allra minnst og reyna þar sem því verður við komið að nota snertilausar kortagreiðslur, sem þó eru aðeins heimilar upp að 500 króna kaupverði, um 7.500 íslenskum krónum.

Hefur seðlabankanum borist fjöldi fyrirspurna sem meðal annars fjalla um hvort kaupmenn geti neitað að taka við reiðufé þvert á þann áskilnað norskra laga, að allar greiðslur upp að 40.000 krónum, 602.500 ISK, hafi kaupendur rétt á að inna af hendi í beinhörðum peningum sýnist þeim svo.

„Hvað smithættu varðar hefur Lýðheilsustofnun gefið það út að miðað við þá þekkingu sem nú er fyrir hendi bendi fátt til þess að notkun peninga auki smithættu,“ segir Veggum en slær þó þann varnagla að hann verði að vísa öllum ákvörðunum um breytingar á greiðslureglum vegna smithættu til annarra stjórnvalda en Seðlabanka Noregs.

E24

Tilkynning norska seðlabankans

Dinside.no (kynning á nýja 1.000 kr. seðlinum í fyrra)

mbl.is