WTO leyfir ESB að leggja refsitolla á Bandaríkin vegna Boeing-stuðnings

Boeing 737-800 þota við öllu búin í heimsfaraldri, öllu nema …
Boeing 737-800 þota við öllu búin í heimsfaraldri, öllu nema evrópskum refsitollum. AFP

Heimsviðskiptastofnunin (WTO) heimilaði Evrópusambandinu (ESB) á þriðjudag að leggja á háa mótvægistolla vegna stuðnings bandarískra stjórnvalda við flugvélaframleiðandann Boeing, ári eftir að hún leyfði Bandaríkjunum að refsa ESB fyrir stuðning við evrópska flugvélaframleiðandann Airbus.

Með ákvörðuninni má ESB leggja tolla og gjöld á bandaríska vöru og þjónustu að jafnvirði um 550 milljarða íslenskra króna. Það telur stofnunin telur vera í réttu hlutfalli við samkeppnishindranir af völdum stuðningsins við Boeing, sem hún telur andstæð alþjóðlegum viðskiptareglum.

16 ára deila um flugvélar, vín og osta

Þessi nýjasta vending í 16 ára þrætu milli Washington og Brussel vegna flugvélaframleiðslu er út af fyrir sig ólíkleg til þess að greiða fyrir lausn hennar, enda pólitísk sáttfýsi um hana af skornum skammti beggja vegna Atlantshafs. Bæði Bandaríkin og ESB telja hinn aðilann beita samkeppnisbellibrögðum í þágu flugvélaframleiðanda. Hins vegar er eftirspurn eftir flugvélum nú í sömu klakaböndum og ferðaþjónusta í heiminum vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar og það kann að vera mönnum hvatning til þess að leysa málið.

Samkvæmt skjali, sem fréttastofan AFP hefur séð, er búist við að ESB leggi refsitolla á bandarískar flugvélar, dráttarvélar, sætkartöflur, jarðhnetur, frosið appelsínusafaþykkni, tóbak, tómatsósu og Kyrrahafslax.

Þá tolla þarf hins vegar að bera sérstaklega undir nefnd WTO um lausn ágreiningsmála, sem að líkindum gerist á næsta fundi hennar undir lok mánaðarins, viku fyrir forsetakosningarnar vestra.

Refsittollarnir, sem Bandaríkin fengu að leggja á evrópska vöru í fyrra voru nær tvöfalt hærri og voru lagðir á um fjórðung evrópsks útflutnings vestur um haf, meðal annars á vín, osta og ólífuuolíu, auk flugvéla.

mbl.is