Krefjast skýringa á líkamsleit

Maður að störfum á Hamad-flugvellinum.
Maður að störfum á Hamad-flugvellinum. AFP

Ástralska lögreglan hefur krafist útskýringa frá stjórnvöldum í Katar vegna líkamsleitar og rannsóknar sem hópur kvenna á leið í flugi frá Doha, höfuðborg Katar, til Sydney í Ástralíu var látinn gangast undir.

Atvikið átti sér stað eftir að starfsfólk á Hamad-alþjóðaflugvellinum fann nýfætt barn á salerni í flugstöðvarbyggingunni. Skoðað var hvort konurnar bæru þess merki að hafa nýlega eignast barn. Atvikið átti sér stað 2. október en foreldrar barnsins hafa enn ekki fundist, að sögn BBC

Málið komst í fréttirnar eftir að ástralskar konur tjáðu sig um málið. Öllum konum sem höfðu þegar gengið um borð í flugvél Katar Airways var gert að yfirgefa vélina. Þrettán ástralskar konur voru fluttar um borð í sjúkrabíl og gert að klæða sig úr nærfötum sínum áður en þær gengust undir rannsókn. Konur frá öðrum löndum voru einnig rannsakaðar. 

Kim Mills sagði í samtali við Guardian að hún væri á meðal þessara kvenna. Hún hefði verið leidd inn á dimmt bílastæði þar sem þrír sjúkrabílar biðu til að rannsaka þær. Hún var þó ekki rannsökuð og grunaði hana að það væri vegna þess að hún er á sjötugsaldri. Samt sem áður sagði hún upplifunina hræðilega.

„Fætur mínir skulfu. Ég var dauðhrædd um að þeir ætluðu að fara með mig eitthvað í burtu. Af hverju sögðu þeir okkur ekki hvað væri í gangi?“ sagði hún og bætti við að starfsfólk á flugvellinum hefði síðar sagt sér að það vissi ekki hvað væri að gerast.

„Ég var dauðskelkuð. Ég get ekki ímyndað mér hvernig þetta var fyrir þessar aumingja ungu stúlkur.“

Stjórnvöld í Katar hafa ekki tjáð sig um atvikið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert