Lokasprettur lokasprettsins

Forsetaframbjóðendurnir tveir, Biden og Trump. Myndin er nokkuð lýsandi fyrir …
Forsetaframbjóðendurnir tveir, Biden og Trump. Myndin er nokkuð lýsandi fyrir afstöðu þeirra til viðbragðs við kórónuveirunni. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Joe Biden, mótframbjóðandi hans, keppast við að vinna hylli Bandaríkjamanna nú þegar aðeins fjórir dagar eru þar til gengið er að kjörborðinu þar vestra. Reyndar hafa tugmilljónir kosið utan kjörfundar og stefnir allt í mestu kjörsókn í forsetakosningum í heila öld. Biden hefur nokkuð öruggt forskot á Trump á landsvísu. Það hafði þó Hillary Clinton líka árið 2016 en allir vita auðvitað hvernig það fór. 

Frambjóðendurnir tveir þeytast nú um miðvesturríki Bandaríkjanna í von um að kreista þaðan eins mörg atkvæði og mögulegt er. BBC greinir frá því að Biden hafi ferðast til Iowa-ríkis, þar sem Trump vann með 10 prósentustigum árið 2016. Vefurinn FiveThirtyEight spáir því að í Iowa verði munurinn milli frambjóðendanna hvað minnstur. Á meðan heimsótti Trump Minnesota, þar sem Hillary Clinton vann naumlega árið 2016.

Joe Biden heimsótti Iowa nýverið en þar er talið að …
Joe Biden heimsótti Iowa nýverið en þar er talið að verði eins mjótt á mununum og um getur. Trump vann Iowa með 10% mun árið 2016. Hér sjást stuðningsmenn Trump trufla kosningafund Bidens, veifandi fánum og þeytandi bílflautum. AFP

Úrslitaríkin

Þau ríki sem talin eru geta ráðið úrslitum eru til að mynda Arizona, Flórída og Pennsylvanía. Það þýðir að ekki er útséð um hvor frambjóðendanna sigri í þeim ríkjum, og verða því allra augu á þessum ríkjum á kjördagsnótt. Sér í lagi Flórída og Pennsylvaníu, en enginn hefur orðið forseti undanfarin ár án þess að vinna í Flórída.

Úrslit í Flórída berast yfirleitt tiltölulega snemma, og því verður grannt fylgst með Pennsylvaníu þegar úrslitin liggja fyrir í Flórída. Talið er að Pennsylvanía sé það fylki sem muni veita öðrum hvorum frambjóðandanum þá kjörmenn sem til þarf til að vinna, eða 270 í heildina.

Kjósendur bíða í röð á kjörstað í Georgíu-fylki.
Kjósendur bíða í röð á kjörstað í Georgíu-fylki. AFP

FiveThirtyEight

Það er nefnilega ekki svo í Bandaríkjunum að fjöldi atkvæða ráði úrslitum um hver verði forseti og hver lúti í lægra haldi. Það gera svokallaðir kjörmenn. Öll 50 ríki Bandaríkjanna eru með tvo kjörmenn, jafnmargir og öldungadeildarþingmenn hvers ríkis.

Hins vegar bæta ríkin svo við sig kjörmönnum eftir íbúafjölda. Þannig er fjölmennasta ríkið, Kalifornía, með 55 kjörmenn af 538 í heildina á meðan Alaska og Norður-Dakóta eru hvor um sig með 3 kjörmenn. 

Úrslitin gætu orðið túlkunaratriði

Eins og fyrr segir hefur metfjöldi fólks kosið utan kjörfundar nú þegar, eða 85 milljónir kjósenda. Þar af hafa um 50 milljónir kosið með svokölluðum póstatkvæðum. Talning þessara atkvæða tekur mun lengri tíma en þau sem berast á kjördeginum sjálfum. Þess vegna er allt útlit fyrir að hæstiréttur Bandaríkjanna verði að skera úr um ýmis vafaatriði tengdum kosningunum, sem nú þegar hafa komið upp eins og Politico greindi frá fyrir ekki svo löngu. 

Flestir muna eflaust eftir bandarísku forsetakosningunum árið 2000, þegar George Bush, frambjóðandi Repúblikana, hafði betur gegn demókratanum Al Gore. Svo mjótt var á mununum í Flórída að allt stefndi í endurtalningu. Þá skarst Hæstiréttur Bandaríkjanna í leikinn, dæmdi svo að ekki væri þörf á endurtalningu og úr varð að Bush sigraði.

Al Gore og George Bush fyrir kappræður forsetaframbjóðanda árið 2000. …
Al Gore og George Bush fyrir kappræður forsetaframbjóðanda árið 2000. Þegar allt kom til alls voru það einungis um 500 atkvæði sem skáru úr um úrslitin þeirra á milli. Bush varð forseti og sat í tvö kjörtímabil, frá árinu 2000 til 2008. AFP

Metfjöldi kjósenda og metfjöldi smita

Kórónuveirufaraldurinn setur svo svip sinn á bandarísku kosningarnar líkt og flest annað. Frambjóðendurnir hafa ýmist hvatt til þess að fólk kjósi og kjósi snemma. Hins vegar hefur þá greint um hvernig það skuli gert, Trump hvetur sína kjósendur til þess að mæta á kjörstað og kjósa í eigin persónu, á meðan Biden hefur hvatt kjósendur sína til að kjósa með póstatkvæðu, til þess að vernda sig og aðra fyrir veirusmiti. 

Þrátt fyrir þetta stefnir í að kjörsókn verði með mesta móti eins og fyrr segir. Í Texas hafa fleiri kosið nú þegar en gerðu í heild sinni árið 2016. Útlit er fyrir sannkallað kjörsóknarmet.

Met verða þó slegin víðar, líkt og sannast hefur á undanförnum dögum. Bæði í gær og svo aftur í dag greindist metfjöldi kórónuveirusmita í Bandaríkjunum og greindust tæplega 100 þúsund manns í gær. Þá hafa tæplega 1.000 manns látist dag hvern í Bandaríkjunum undanfarið, það er þó ekki jafnmikið og var þegar faraldurinn skall fyrst á, þegar um og yfir 2.000 manns létust á degi hverjum. 

Snúin kosninganótt

Líklega munu fleiri en oft áður fylgjast með forsetakosningunum nú en áður hafa gert. Margir álitsgjafar segja þetta merkilegustu kosningar í sögu landsins, fyrir margar sakir. Það er þó vert að benda á að líklega verði kosninganóttin aðfaranótt miðvikudags ekki sú æsilegasta. Vegna allra þeirra póstatkvæða sem hafa borist er útlit fyrir að eiginleg úrslit liggi ekki fyrir fyrr en vikum eða jafnvel mánuðum eftir kjördag. 

Hefð er fyrir því í Bandaríkjunum að kjósendur tilgreini hvorn flokkinn þeir styðja, þegar sótt er um að fá að kjósa utankjörfundar. Vitað er að kjósendur Demókrata eru mun líklegri til þess að kjósa utankjörfundar og með póstatkvæðum, en það eru þau atkvæði sem erfiðast er að telja. Því verður að teljast líklegt að á kosninganótt muni líta út fyrir að Trump hafi unnið á, eða jafnvel tekið forystu. Að minnsta kosti allt þar til talning utankjörfundaratkvæða lýkur, en þá er spurning hvor frambjóðendanna fagni sigri. Annar þeirra eða báðir?

mbl.is