Efna til kosninga að faraldri loknum

Muhyiddin Yassin, forstætisráðherra Malasíu.
Muhyiddin Yassin, forstætisráðherra Malasíu. AFP

Þingkosningar verða haldnar í Malasíu að loknum heimsfaraldri kórónuveiru. Frá þessu greindi forsætisráðherra landsins, Muhiyddin Yassin, í morgun skömmu eftir að fjárlagafrumvarp var samþykkt í þinginu. 

Er um að ræða stærstu fjárlög í sögu landsins, en erfiðlega hefur gengið að koma frumvarpinu í gegnum þingið. Hafði stjórnarandstaðan hótað að gera allt sem í sínu valdi stæði til að draga úr vægi aðgerða ríkisstjórnarinnar. 

Ríkisstjórn Muhiyddins er einungis átta mánaða gömul, en hún er með tveggja sæta meirihluta í þinginu. Hefur hann lofað að efna til kosninga um leið og faraldrinum lýkur. 

„Við munum skila valdinu til fólksins og leyfa því að ákveða hvaða ríkisstjórn það vill. Ég veit að fólk er orðið þreytt á pólitíkinni. Það vill leiðtoga sem hjálpar því en eru ekki endalaust í baráttu um völd,“ var haft eftir Muhiyddin. 

Ný bylgja kórónuveirusmita er farin af stað í Asíulandinu, en heildarfjöldi smita hefur fjórfaldast frá því í september. Alls hafa 60 þúsund manns greinst með veiruna í landinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert