Giscard d'Estaing fyrrverandi Frakklandsforseti látinn

Valéry Giscard d'Estaing.
Valéry Giscard d'Estaing. AFP

Valéry Giscard d'Estaing, fyrrverandi Frakklandsforseti, er látinn 94 ára að aldri, en banamein hans var kórónuveirusýking. d‘Estaing er minnst fyrir að hafa vakað yfir umbreytingu Frakklands frá óróa og uppbyggingu eftirstríðsárunna til Frakklands nútímans, en ef til vill þó ekki síður fyrir að hafa verið einn helsti hvatamaður æ nánari Evrópusamruna.

Giscard d‘Estaing, sem var forseti frá 1974 til 1981, var miðhægrimaður, sem á margan hátt gerði franskt efnahags- og atvinnulíf frjálslegra, en þó kannski ekki síður á félagslega sviðinu, en hann kom t.d. í gegn frjálslyndri löggjöf um skilnaði, getnaðarvarnir og fóstureyðingar. Þá var hann duglegur við stóreflis innviðaverkefni á borð við hraðbrautalagningu, TGV-hraðlesatkerfið og kjarnorkuvæðingu raforkuvera landsins.

Emannuel Macron Frakklandsforseti vék að þessuí yfirlýsingu um dauða fyrirrennara síns og sagði hann hafa verið „dyggan þjón franska ríkisins, stjórnmálamann framfara og frelsis“.

Hann hafði um margt nútímalegri stíl en forverar sínir og lagði t.d. af einkennisbúning forsetans og lét sér klæðskerasaumuð föt nægja. Hann reyndi einnig að undirstrika með ýmsum hætti að hann væri alþýðlegur, sem hann var ekki, en uppskar fremur gys en gagnrýni fyrir.

Hann var hins vegar ekki alltaf vandur að vinum, en segja má að tengsl hans við einæðisherrann Bokassa í Mið-Afríkulýðveldinu hafi orðið honum að falli, þegar hann tapaði forsetakosningunum fyrir François Mitterrand naumlega árið 1981.

Hann var hins vegar áfram mikill áhrifamaður í frönskum stjórnmálum og var kjörinn á þing 1984, en tilraunir hans til þess að komast aftur að stjórn ríkisins fóru út um þúfur. Hins vegar lét hann mjög til sín taka á vettvangi Evrópusambandsins, sat á Evrópuþinginu frá 1989-1993 og tók mikinn þátt í stefnumótun á þess vegum. Hann var forseti Samráðs um framtíð Evrópu árin 2001-2004, en sem slíkur var hann einn helsti hvatamaður og höfundur að fyrirhugaðri stjórnarskrá Evrópusambandsins, sem náði raunar ekki fram að ganga sem slík, en lifir að miklu leyti í Lissabon-sáttmálanum sem gerður var 2007.

Giscard d‘Estaing var aldrei óumdeildur maður í lifanda lífi, en í dag hafa menn hins vegar ausið hann lofi, bæði fyrir stjórnmálastörf hans í Frakklandi og á Evrópuvettvangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert