Trump reyndi að snúa úrslitunum við

Forsetinn.
Forsetinn. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti þrýsti á embættismenn í Georgíu að breyta úrslitum forsetakosninganna í ríkinu. Þetta kom fram í símtali forsetans sem Washington Post hefur upptöku af undir höndum. Forsetinn tapaði ríkinu með litlum mun og hefur haldið því fram að um svindl hafi verið að ræða. 

Í símtalinu ræddi Trump við Brad Raffensperger, innanríkisráðherra Georgíuríkis. Í umfjöllun Post um málið kemur fram að Trump hafi reynt hvað hann gat til að fá ráðherrann til að snúa við úrslitunum. 

„Ekki séns“ að Trump hafi tapað

Símtalið hefur ekki verið birt í heild, en í umfjöllun blaðsins kemur fram að Raffensperger hafi alfarið hafnað hugmyndum Trumps. Sagði hann forsetann jafnframt byggja þrýstinginn á samsæriskenningum sem búið væri að kveða í kútinn. 

„Íbúar Georgíu er reiðir, Bandaríkjamenn eru reiðir. Það er ekkert að því að segjast hafa endurreiknað úrslitin. Ég vil bara finna 11.780 atkvæði, sem er einu meira en við þurfum vegna þess að við unnum ríkið,“ á Trump að hafa sagt og bætt við að það sé „ekki séns“ að hann hafi tapað ríkinu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina